Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:29]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhugavert að fylgjast með þessum launaforsendum. Ég átta mig ekki á því nákvæmlega hverjar þær eru í tilviki heilbrigðiskerfisins en almennt í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að laun hækki um 5% á næsta ári, sem er það sama og var gert ráð fyrir að myndi gerast á þessu ári, en raunin var 7,5%. Þó var þetta ekki eins erfitt ár og við erum að sigla inn í á næsta ári. Það er hæglega hægt að sjá tölur upp á 6, 7, 8%, sérstaklega miðað við hvernig fjárlögin líta núna út. Það sem er svo grátbroslegt við þetta allt saman er að hér er verið að messa yfir öðrum flokkum varðandi útgjaldaflaum og svo áttar fólk sig ekki á því að þessar skammtímalausnir leiða af sér miklu meiri kostnað til lengri tíma, vegna þess að launakröfur aukast bara í staðinn. Það hefur margoft komið fram í umfjöllun um heilbrigðiskerfið. Nú síðast í vor var Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor með útreikninga á þessu þar sem búið var að aðlaga fjárframlög fyrir launabreytingum, aukinni þjónustuþyngd, öldrun þjóðar, og þá sjáum við hvernig fjárframlög inn í kerfið hrynja. Þetta er ástæðan fyrir því að veruleiki fólks sem vinnur í heilbrigðisþjónustu í landinu er jafn slæmur og birtist okkur ítrekað í fjölmiðlum og viðtölum. En á þetta er ekki hlustað, það er bara gripið í einhverjar almennar, óleiðréttar tölur, slengt fram háum upphæðum í fólk svo það sjái ekki stóru myndina. Við heyrðum á fundi fjárlaganefndar og í kynningum sem hafa verið gerðar opinberar af stjórnendum spítalans og annarra sjúkrastofnana um allt land að það er vanfjármögnun í heilbrigðiskerfinu. Og það er ótrúlegt eftir þetta sumar og eftir það sem við sjáum nú gerast víða, að það sé ekkert við þessu brugðist.