Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:06]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Sannleikurinn er sá að það er auðvitað margt sem sameinar okkur á Alþingi, einfaldlega vegna þess að við erum hluti af sömu þjóð. Það er ekki þannig að hér séu allir ósammála um allt og ég ætla ekki að standa hér og halda því fram að allt sé vonlaust í fjárlagafrumvarpinu. Umræðan hér snýst hins vegar eðlilega um það sem aðgreinir okkur, um pólitíkina. Fjárlagapólitík snýst í mínum huga í reynd um einfalda en mikilvæga spurningu sem er sú hvernig samfélagi við viljum búa í. Hvernig virkar samfélagið okkar best? Hvað er það sem gerir okkur stolt af samfélagsgerðinni og af okkur sem þjóð? Fjárlögin eiga að vera leiðin að þessu markmiði. Umræða um grundvallarmál eins og fjármál á og verður að vera skýr, hún snýst um grundvallarafstöðu og þá er stundum erfiðara að tala skýrt en að fara um víðan völl. Varðandi þetta fjárlagafrumvarp er ekki nóg að lesa textann og rýna það sem hann segir, það þarf líka að leita eftir því sem ekki segir þar. Þögnin segir stundum heilmikla sögu af því hver pólitíkin er og það á sannarlega við um þetta fjárlagafrumvarp. En þetta fjárlagafrumvarp hefur meiri þýðingu fyrir samfélagið en oft áður í ljósi verðbólgunnar, í ljósi komandi kjarasamninga og í ljósi þess hver staða heimilanna er vegna hækkandi vaxta.

Hér liggur fyrir frumvarp sem hljóðar upp á næstum 90 milljarða kr. halla og sú staðreynd fær merkilega litla athygli. Ríkisstjórnin kýs sjálf að segja þannig frá að afkoman sé betri en reiknað hafi verið með, en þegar fjármálaáætlunin var samþykkt í vor var gert ráð fyrir að hallinn væri 82,5 milljarðar. Nú er staðan 6,5 milljörðum kr. verri en þá, síðan í vor. Þá þarf að ræða það af alvöru hvað það er samfélaginu dýrkeypt að skulda. Heimilin á Íslandi þekkja þann veruleika vel, það er dýrt að skulda. Þetta er líka veruleiki íslenska ríkisins. Fjórði stærsti útgjaldaliður íslenska ríkisins er vaxtakostnaður og allir sem vilja verja lífskjör og verja velferð hljóta að vilja sjá það gerast að við séum ekki að ráðstafa fjórðungi af útgjöldum okkar í vexti til lengri tíma. Þá þarf að greiða niður skuldirnar en ríkisstjórnin ætlar að flytja skuldavandann yfir á næstu ríkisstjórn. Reikningurinn er einfaldlega skilinn eftir fyrir næstu stjórn og um leið fyrir þá sem yngri eru. Ríkisstjórnin er þar kannski dálítið í hlutverki mannsins sem stendur upp frá borði á veitingastað og skilur aðra eftir með reikninginn. Sá leikur þykir nú yfirleitt ekki flottur. Á meðan ríkisstjórnin hefur 90 milljarða kr. gat til að fylla þá eru lausnirnar sem hún boðar metnaðarlausar hvað varðar aðhald. Það er lækkun á framlagi til stjórnmálaflokka upp á 36 millj. kr., til Kvikmyndamiðstöðvar um 50 milljónir. Það er lækkun á ferðakostnaði ríkisins. Það er frestun viðbyggingar við Stjórnarráðið um ár upp á 850 milljónir. Samanlagt nær þetta ekki einu prósenti af vandanum.

Ríkisstjórnin er í sama passífa hlutverkinu gagnvart verðbólgunni. Fjármálaráðherra talar vissulega um að ríkisfjármálin eigi að styðja við markmið Seðlabankans um að halda verðbólgu í skefjum og ná henni niður en hann segir okkur ekki hvernig. Ríkið hefur stóru hlutverki að gegna í því að halda aftur af verðbólgunni en stígur allt of fá skref. Það eru fjölskyldur landsins og heimilin sem fá reikninginn af þessu aðgerðarleysi. Á meðan stendur Seðlabankinn hjá og biður fólk vinsamlegast um að hætta bara að eyða peningum. Hátt húsnæðisverð á einn stærsta hlutann í verðbólgunni og ákvarðanir ríkisstjórnar í heimsfaraldrinum eiga sinn þátt í þeirri hækkun. Lausnin er vitaskuld að auka framboð en líka að auðvelda uppbyggingu.

Fjárlagafrumvarpið er líka þögult um þetta stóra hagsmunamál heimila og fjölskyldna landsins. Stofnframlög til uppbyggingar í almenna íbúðakerfinu eru lækkuð um 2 milljarða og svarið er hið hefðbundna: Það er starfshópur að störfum. En í allt sumar hefur þessi erfiða staða verið til umfjöllunar í samfélaginu öllu, ört hækkandi vextir á húsnæðislánum, en engu að síður birtist okkur þetta fjárlagafrumvarp að hausti með fá svör hvað varðar vexti, veruleika fólksins í landinu og verðbólguna.

Fjármálaráðherra talaði í kynningu á fjárlagafrumvarpi um tækifæri í einfaldara ríkiskerfi og sameiningu ríkisstofnana. Þar er ég honum einlæglega sammála. En engar beinar tillögur liggja hins vegar fyrir. Sem þjóð eigum við sennilega ekki bara heimsmet í fjölda ráðherra miðað við höfðatölu heldur líka í fjölda ríkisstofnana miðað við höfðatölu. Mér skilst að þær séu um 163. Það mætti minna hæstv. fjármálaráðherra á að eitt af hans fyrstu þingmálum fyrir rúmum 20 árum fjallaði um lágmarksstærð ríkisstofnana en tillögur til að fylgja eftir þessum hugmyndum hefur vantað. Þær eru ekki í þessu frumvarpi. En á meðan sá sami fjármálaráðherra talar fyrir þessum sannleika sagði hann það þræleðlilegan leik að henda upp nýjum ráðuneytum og fjölga ráðherrastólum eftir síðustu kosningar sem skilaði okkur reikning upp á einhverja milljarða. Sameiningar stofnana hefðu verið prýðisgóð leið til hagræðingar og hér eru skemmtileg tækifæri til að hugsa hlutina upp á nýtt og skapa nýjar lausnir.

Það þarf líka að ræða sölu á hlut í Íslandsbanka í samhengi við þessi fjárlög og auðvitað blasir þar við trúverðugleikavandi ríkisstjórnarinnar eftir það hvernig hún stóð að málum síðast. Sú hætta er fyrir hendi að þessir fjármunir almennings lokist inni í bönkunum og nýtist ekki til innviðauppbyggingar eða greiðslu skulda. Ríkisstjórnin hefur talað fyrir því að það eigi að verja viðkvæmustu hópana fyrir áhrifum verðbólgunnar. Ég ætla að gefa mér það að allir í þessum sal séu sammála um það markmið og nauðsyn þess. En hér vantar líka skýrar aðgerðir og svör. Tekjuöflun ríkisins felst á sama tíma fyrst og fremst í því að auka byrðarnar á millitekjufólki. Millitekjufólkið fær töluvert harðan skell í þessu frumvarpi. Ungt fólk, sem finnur t.d. nú þegar illilega fyrir hærri vöxtum á fasteignalánum og hækkandi verðlagi úti í samfélaginu. Hingað vill fjármálaráðherra sækja tekjur og þessar aðgerðir bíta millitekjuhópinn en líka þann viðkvæmasta. Það er erfitt að sjá fyrir sér, þegar verið er að hækka gjöld með þeim hætti sem þetta fjárlagafrumvarp boðar, hvernig það á að vinna gegn verðbólgu. Ég nefni stimpilgjöld, ég nefni áfengisgjöld, við þekkjum dæmin öll en síðan kemur veiðigjald á útgerðirnar sem hækkar um 0,9 milljarða, það er 3 milljörðum lægra en það var árið 2018. Veiðigjöld dagsins í dag standa varla undir fiskveiðieftirliti enda heyrist orðið veiðigjald ekki þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar tala um fjárlagafrumvarpið. Orð bankamálaráðherrans heyrast að vísu ekki heldur, sem hefur verið í fjölmiðlum og talað um hvalrekaskatt. Maður spyr sig hvort rödd hennar heyrðist eða hvort hún beitti sér ekki þegar á reyndi.

Frú forseti. Við verðum að tala um heilbrigðismálin sem eru stærsti liður fjárlaganna og sá málaflokkur sem þjóðin öll er einhuga um að vilja verja en líka efla. Þar blasir við vandi til skemmri tíma og til lengri tíma. Það eru engar breytingar á framlögum til sjúkrahúsþjónustu í þessu frumvarpi. Hér finnst mér vanta langtímahugsun. Hér finnst mér vanta framtíðarsýn fyrir heilbrigðiskerfið og auðvitað þarf að tækla verðbólguna til að geta staðið undir heilbrigðiskerfinu til framtíðar. Áskoranirnar blasa við. Það er mönnunarvandi. Sérfræðilæknar skila sér ekki heim eftir sérfræðinám erlendis. Hjúkrunarfræðingar hverfa til annarra starfa. Heilbrigðisstarfsfólk er í dag eftirsóttustu starfskraftar heims og við þurfum sem samfélag að standast samkeppni að utan. Viðreisn vill þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta, hjúkrunarfræðinga þar með talda. Það væri liður í því að styrkja heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið. Viðreisn hefur áður lagt fram þingsályktunartillögu um einmitt þetta og samningar við sérfræðilækna þjóna sama tilgangi.

Ég hef farið yfir nokkra af þeim þáttum sem við gerum athugasemdir við í þessu frumvarpi, hvers vegna ríkisstjórnin geti varið það að almenningur fái ekki sanngjarnan hluta af því að stórútgerðin fái einkarétt á að nýta sjávarauðlindina. Ég vil líka nefna að hluti af því að fara vel með fjármuni almennings er auðvitað að velja gjaldmiðil sem auðveldar okkur lífið í stað (Forseti hringir.) þess að gera okkur það erfiðara. Það verður að vera okkar langtímamarkmið. Ég læt hér staðar numið en tíminn er hlaupinn frá mér.