Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:44]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst tek ég heils hugar undir varðandi húsnæðismálin og mikilvægi þess að auka framboð. Á því sviði hefur þessi ríkisstjórn algerlega klikkað. Hún hefur brugðist í því að gera þær ráðstafanir sem dygðu til að auka framboð á húsnæði og dygðu til að gera húsbyggingar hagkvæmari, ódýrari. Það ætti að vera eitt af forgangsatriðum hennar í að takast á við verðbólguna.

En þá að veiðigjöldum og sjávarútvegsmálum almennt. Hv. þingmaður bendir á að það mætti taka aukin gjöld af sjávarútvegi og setja í nýsköpun. Jú, það er hægt að leggja aukin gjöld á sjávarútveg en ekki allan sjávarútveg. Ég kem að því rétt strax, en fyrst að tengingunni við nýsköpun. Við megum ekki gleyma því að ein helsta undirstaða nýsköpunar á Íslandi undanfarin ár og jafnvel áratugi hefur verið sjávarútvegur sem hefur náð þeim árangri að hann hefur getað byggt upp í kringum sig stórkostleg nýsköpunarfyrirtæki. Alls konar tækni- og framleiðslufyrirtæki og þjónustufyrirtæki sem skipta bara verulegu máli fyrir íslenskt efnahagslíf og hefðu ekki orðið til nema vegna þess að sjávarútvegi var leyft að verða hagkvæmur, en einhvers staðar þarf að draga mörkin. Við viljum ekki sjá eitt sjávarútvegsfyrirtæki, eitt ofurhagkvæmt sjávarútvegsfyrirtæki sem skilar megninu af tekjum sínum í ríkissjóð. Við viljum ekki eina ríkisútgerð. Þess vegna byggja tillögur okkar varðandi gjaldtöku af sjávarútvegi á því að þær leggist á tekjurnar og hlífi þar með minni sjávarútvegsfyrirtækjum, svo við komumst hjá því að þetta renni allt saman í örfáar risablokkir, risafyrirtæki. Það hefur verið þróunin fram að þessu, (Forseti hringir.) samþjöppun í sjávarútvegi hefur verið að aukast og gjaldtakan verður að taka mið af því og helst að hindra slíka þróun.