Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:53]
Horfa

Valgerður Árnadóttir (P):

Frú forseti. Fjárlagafrumvarpið er mælikvarði á það sem ríkisstjórnin telur mikilvægast að leggja áherslu á. Það er nokkru auðveldara að fegra fyrirætlanir sínar í ræðu og riti en í bókhaldinu því tölurnar tala alltaf sínu máli. Stefnur og loforð gagnast lítið ef fjármagn fylgir ekki orðum. Það ríkir neyðarástand í loftslagsmálum, um það erum við flest sammála. Hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, impraði á því í stefnuræðu sinni í gær að við þyrftum að leggja okkar af mörkum og draga úr losun sem nemur 55% af heildarlosun Íslands. Hún sagði enn fremur að markmið ríkisstjórnarinnar væru metnaðarfull og að við værum á fullri ferð inn í nýtt grænt hagkerfi. Þessar yfirlýsingar skjóta skökku við þegar rýnt er í fjárlagafrumvarpið 2023 því þar er gert ráð fyrir því að fjárframlög til loftslagsaðgerða aukist um upphæð sem nemur 0,04% af fjárlögum ríkisins. Þegar við teljum til fjárhæðirnar sem renna til allra málefna sem flokkast sem umhverfismál þá eru þær tæplega 2% af fjárlögum.

Hvernig má það vera að loftslagsmálin fá svona mikið pláss í stefnuræðu forsætisráðherra þegar raunverulega skuldbindingin er eins óáþreifanleg og raun ber vitni í fjárlögum? Þegar rýnt er í þessa margumræddu aðgerðaáætlun, sem forsætisráðherra segir að þurfi að endurskoða, sjáum við enn fremur að samdráttur í losun er lagður á herðar almennings í stað mengandi stóriðju. Þetta er að mínu mati kolröng forgangsröðun því mesta hættan sem steðjar að náttúru Íslands stafar af orkuframleiðslu fyrir orkufrekan iðnað. Stóriðja, sér í lagi framleiðsla málma, er í senn mjög mengandi fyrir loftslagið, auk þess sem hún setur einstakar náttúruperlur í hættu. Til að framleiða málma þarf að flytja inn mörg þúsund tonn af kolum og timburkurli sem brenna þarf með tilheyrandi mengun. Losun frá jarðvarmavirkjunum á Íslandi nemur 37% heildarlosunar og losun frá stóriðju nemur 44%. Samtals eru þessir tveir liðir ábyrgir fyrir um 81% af heildarlosun Íslands. Þrátt fyrir vitneskju um þennan vanda þá er áhersla ríkisstjórnarinnar þegar kemur að loftslagsaðgerðum lögð á orkuskipti í samgöngum. Orkuskipti sem á að framkvæma með því að virkja meira í stað þess að forgangsraða þeirri orku sem fyrir er og nýta hana í græna innviði. Mengandi stóriðja notar um 80% alls rafmagns í landinu og allur annar iðnaður og almenningur nota einungis um 20%. Hvers vegna er þá verið að setja ábyrgðina á orkuskiptum á almenning í stað þess að tækla hinn raunverulega vanda, sem er mengandi stóriðja? Hvernig má það vera að mengandi stóriðja er ekki skattlögð? Afhverju er ekki verið að líta til þess að draga úr framleiðslu á áli til að minnka losun og standa við markmið okkar og skuldbindingar? Er þetta neyðarástand eitthvert ómerkilegt gæluverkefni?

Við erum að greiða rúmlega 800 milljónir í sektir þar sem við uppfyllum ekki skuldbindingar okkar vegna Kyoto-bókunarinnar og það þótt við séum á undanþágu og megum losa hlutfallslega meira af gróðurhúsaloftegundum en önnur aðildarríki bókunarinnar. Þessar sektir éta upp ansi stórt hlutfall af því litla fjármagni sem fer í umhverfis- og loftslagsaðgerðir og 500 millj. kr. aukaframlag til loftslagsmála 2023 hverfur alveg. Framlög til umhverfis- og loftslagsmála eru ekki í neinu samræmi við þann skaða sem iðnaðurinn veldur.

Við höfum möguleika á að afla tekna á máta sem er minna skaðlegur fyrir umhverfið. Að afla tekna af mengandi stóriðju er pólitísk ákvörðun stjórnvalda. Það eru t.d. gríðarlega vannýtt tækifæri til að framleiða vistvæna útflutningssvöru eins og matvöru. Það er alvarlegur uppskerubrestur víða um heim vegna neyðarástands í loftslagsmálum og stríðsátaka sem ekki sér fyrir endann á. Þessi uppskerubrestur, sem gæti reynst langvarandi, ógnar fæðuöryggi okkar og heimsbyggðarinnar allrar. Forsætisráðherra minntist á það að stuðningur við grænmetisbændur hafi verið aukinn um fjórðung. Það er engin haldbær aukning. Til að anna eftirspurn þyrfti að auka stuðning margfalt meira og stuðla að réttlátum umskiptum í landbúnaði enda er vitað að draga þarf úr framleiðslu dýraafurða og auka vistvæna framleiðslu til að uppfylla skuldbindingar okkar í losun. Ef orka okkar og jarðvarmi væri í auknum mæli nýttur til að rækta grænmeti, ávexti og baunir og ef við myndum styðja bændur til aukinnar kornræktar gætum við ekki einungis stuðlað að auknu fæðuöryggi heldur einnig búið til eftirsóknarverða útflutningsvöru um leið og við sköpum fleiri störf. Fleiri störf og meiri matur eru eitthvað sem við þurfum á að halda þar sem auknir fólksflutningar eru óhjákvæmileg afleiðing loftslagsbreytinga í heiminum. Við megum eiga von á því að taka á móti umtalsvert fleiri flóttamönnum á komandi árum og þá er mikilvægt að við séum í stakk búin til að sinna grunnþörfum þeirra.

Þegar sett eru raunverulega metnaðarfull markmið í loftslagsmálum þá er óhjákvæmilegt að koma þeim inn í öll kerfi samfélagsins. Við þurfum að breyta því hvað við borðum, hvernig við ferðumst, hvernig við byggjum húsin okkar, hvernig við rekum fyrirtæki og hvernig við nýtum auðlindir okkar. Það er ekki að sjá á áætlunum ríkisstjórnarinnar að nokkuð slíkt sé í kortunum. Hæstv. matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tók það fyrir í stefnuræðu sinni að skattleggja ætti stórútgerðina, en það er heldur ekki að sjá neinar slíkar fyrirætlanir í fjárlögum. Hins vegar á að skattleggja áfengi enn frekar, aðgerð sem kemur illa niður á veitingahúsaeigendum og smábrugghúsum. Fjármálaráðherra kvaðst ánægður með það að ferðamannalandið Ísland hafi verið uppselt í sumar eftir dapra tíma í heimsfaraldri. En ferðamenn þola ekki takmarkalausar verðhækkanir. Ef verð á matvælum og áfengi hækkar enn frekar munu þeir einfaldlega hætta að koma. Svo er það nú annað mál að ferðamenn koma ekki hingað vegna þess að við Íslendingar erum svo frábær, falleg og flott. Ferðamenn koma hingað til að njóta ósnortinnar og stórbrotinnar náttúru. Ef við virkjum hverja lækjarsprænu þá hætta þeir að koma. Hvort viljum við byggja hér upp grænan ferðamannaiðnað með tilheyrandi almenningssamgöngum eða mengandi stóriðju?

Það er heldur ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar að byggja upp vistvænar almenningssamgöngur á landsbyggðinni. Þrátt fyrir fögur fyrirheit um að vernda óspillta náttúru Íslands þá er henni fórnað fyrir krónur og aura þegar kemur að vegaframkvæmdum. Jafnvel aðgerð sem mikil áhersla er á eins og að rafvæða bílaflotann stendur nú völtum fótum þar sem skattar hafa verið hækkaðir á rafmagnsbíla, og nógu voru þeir dýrir fyrir og ekki á allra færi að kaupa sér þá. Í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er einnig talað um að fanga kolefni með því að planta trjám og endurheimta votlendi. Sú aðgerð er mikilvæg til að búa í haginn fyrir framtíðina, en það tekur tíma fyrir tré að vaxa og binda kolefni. Þetta er þó enn eitt dæmið um það hvernig ríkisstjórnin segist ætla að gera eitt en endar svo á því að gera eitthvað allt annað eins og vegurinn um Teigsskóg sýnir svo skýrt. Þar valdi Vegagerðin, undir stjórn innviðaráðherra, að fara, af þeim leiðum sem í boði voru, þá leið sem hafði verst áhrif á umhverfið vegna þess að hún kostaði minnst. Þúsundir trjáa í elsta landnámsskógi á Vestfjörðum voru felld, tré sem þegar höfðu mikilvægu hlutverki að gegna; að binda kolefni, að binda jarðveg, veita dýrum skjól og framleiða súrefni. Áratugalangri baráttu íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum fyrir betri vegi endaði með því að ódýrasta leiðin var valin á kostnað náttúrunnar, á kostnað smádýra og fugla og á kostnað loftslagsins. Við eigum gott íslenskt orð yfir þetta og það heitir grænþvottur.

Við verðum að átta okkur á því að ef við ætlum að tækla neyðarástand í loftslagsmálum þá þurfum við fjármagn í samræmi við neyðina. Orðið „neyð“ er ekki eitthvað tískuhugtak sem við getum slegið um okkur þegar okkur hentar. Það er neyðarástand í loftslagsmálum og við þurfum að hegða okkur í (Forseti hringir.) samræmi við stöðuna og setja fjárlög sem endurspegla nauðsynlegar aðgerðir. Það þarf að gera miklu betur.