Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:34]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ótrúlegt en satt þá erum við stundum sammála á milli flokka. Hv. þingmaður fór vel yfir mikilvægi samgangna í landinu og sérstaklega hve mikilvægt er að horfa til þess að ef verið er að fjárfesta í slíkum innviðum þá séu þeir hagvaxtarhvetjandi. Þess vegna getur borgað sig að taka lán fyrir þeim ef þeir hvetja til aukinna umsvifa, atvinnuuppbyggingar og þess háttar. Í ljósi þess að hv. þingmaður situr einnig í umhverfis- og samgöngunefnd og er með þessi mál til umfjöllunar þá langar mig til að velta því upp hvort hann deili þeim áhyggjum með mér að samgönguáætlun er ekki verðbætt. Við höfum fengið þau skilaboð, m.a. í hv. fjárlaganefnd í vor, að fyrir liggi að kostnaður margra verkefna er rokinn upp öllu. Nú sjáum við núverandi verðbólgutölur og launakostnað og það er ekkert í núverandi fjárlögum sem bendir til þess að það eigi að bæta upp þennan kostnað. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gefið til kynna að þetta muni þýða að Vegagerðin þurfi að forgangsraða. Nú sitjum við hv. þingmaður saman í fjárlaganefnd og það er ýmislegt sem þarf að ræða á næstu vikum. Er þetta eitthvað sem hann telur að muni mögulega breytast á komandi vikum?