Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:40]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi framkvæmdafjármagnið þá eru þessar tilfærslur í samgöngunum frekar lágar miðað við heildarupphæðina, sem er um 40 milljarðar, en þetta eru einhverjir 2–3 milljarðar sem verið er að færa þarna til, fresta á milli ára, sem mér finnst ekki heppilegt. En við verðum líka að átta okkur á því að það tengist því aukna fjárfestingarátaki sem farið var í umfram samgönguáætlun og þetta reglubundna fé sem við höfum verið að setja í þetta. Ég ætla nú ekki að gera neinar stórar athugasemdir við það heldur segja að ég vil alltaf fá meira í samgönguframkvæmdir, það er bara minn vilji og ég veit að það borgar sig. En ég hefði samt frekar viljað setja þennan pening í aukinn undirbúning. Ég hef lengi sagt það, bæði í samgöngunefnd og í fjárlaganefnd, að Vegagerðin eigi að hafa miklu meira fjármagn til að undirbúa framkvæmdirnar svo ekki verði þessar óvæntu tafir og annað slíkt og þá sé hægt að fara hraðar af stað þegar fjármunirnir koma eða þegar það hentar hagkerfinu. Það virkar ekki að setja aukinn pening þegar það hentar hagkerfinu að fara hratt af stað þegar allur undirbúningur er eftir. Ég held að þar þurfi að setja áhersluna.

Varðandi gagnsæið og safnliðina af varasjóði þá fagna ég því að þeir skuli þó alla vega segja að nú verði tekinn frá peningur í þau verkefni, og nefna hvaða verkefni er verið að skoða. Við þekkjum það úr fjárlagavinnunni, við sem höfum verið lengur hér, að það koma oft stórar breytingar bara rétt í desember þannig að nú er búið að segja: Heyrðu, við munum koma með breytingar og þær munu snúa þessu og þangað munu stærstu upphæðirnar fara. En ef þetta gerir það að verkum að það verður sett í fleira og fleira í framtíðinni er það ekki góð þróun. En ég held að það sé meira gagnsæi í þessu. Nú er bara sagt: Heyrðu, það er von á breytingum. Fagráðuneytin voru ekki tilbúin með þær en þegar það gerist þá kemur það í ljós.