Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir. Ég verð strax í byrjun að leiðrétta hæstv. ráðherra. Það er auðvitað í besta falli útúrsnúningur að halda því fram að í nefndaráliti meiri hluta samgöngunefndar hafi verið lagt til að gjald yrði tekið í öllum jarðgöngum. Það var ekki hluti af þeirri umræðu sem þar fór fram, það var í besta falli að það yrði gert í nýjum göngum. Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi verið afstaða nefndarinnar á þeim tíma. En ég verð að viðurkenna að það kemur mér mjög á óvart að nú þegar sé farið að bjóða út verk á grundvelli þessarar yfirvofandi gjaldtöku ef framkvæmdarvaldið hefur ekki minnsta grun um hvernig ætlunin er að landa málinu og hverjar tekjur verða af því; það sé bara verið að vinna þetta jafnt og þétt og svo eigi að bjóða þetta út jafnt og þétt og svo skoða þessi gjaldtökumál seinna. Það er alveg ótækt. Hæstv. ráðherra segir hér að það sé verið að skipta um kerfi en enn sem komið er bara verið að bútasauma kerfið, það er verið að bæta inn ákveðnum þáttum sem snúa að gjaldtöku gagnvart afmörkuðum verkefnum. Það er ekkert í hendi fyrir okkur almenna þingmenn sem bendir til þess að verið sé að draga að einhverju marki úr gömlu gjaldtökunni nema þá bara með sparneytnari bílum og hærra hlutfalli rafmagnsbíla.

Ég reikna ekki með að það komi ítarlegra svar þó að ég ítreki spurningarnar en mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra nýrrar spurningar sem snýr að því að hann sagði í andsvari áðan að 3 milljarðarnir sem frestast núna komi aftur inn á næsta ári, árið 2024 ef ég skildi hann rétt. Koma þeir 3 milljarðar ofan á töluna sem er áætluð í fjármálaáætlun eða ofan á hvaða tölu bætast þeir 3 milljarðar sem nú eru dregnir af árið 2024?