Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:26]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör og hvet hann og ríkisstjórnina til dáða í því að fylgja eftir ákvörðun um uppbyggingu flutningskerfisins og þessum ágætu tillögum sem starfshópur skilaði.

Undir hæstv. ráðherra heyra umhverfismálin og þá rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands. Það er ánægjulegt að sjá megi áherslu á eflingu vöktunarkerfis vegna náttúruvár. Með breytingum á veðurfari og hækkandi lofthita er nauðsynlegt að fylgjast með fjalllendi með tilliti til ofanflóða, hvort sem það eru skriður eða snjóflóð. Það er mikilvægt fyrir hinar dreifðu byggðir að aukin vöktun verði á þessari hættu ásamt því að rannsóknir verði á fleiri stöðum á landinu, bæði í grennd við íbúabyggð og á fjölmennum ferðamannastöðum, að ógleymdum umferðarmannvirkjum og höfnum sem hafa kannski orðið svolítið út undan en hafa reyndar orðið fyrir ofanflóðum. Þótt ótrúlegt sé þá hafa hafnir eins og fyrir vestan orðið fyrir því. Það mætti líka ætla að með nýrri tækni og þekkingu sé hægt að fylgjast betur með breytingum og áhættu sem kostar þá minni fjármuni.

Nú er komið á þriðja áratug frá því að ný lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum litu dagsins ljós. Í kjölfarið var ofanflóðasjóður efldur til muna. Margar varnir hafa verið byggðar fyrir ofan íbúabyggð en því miður hefur áætlun ekki staðist í uppbyggingu varnargarða um landið. Í því sambandi væri gott að heyra frá hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hvort ekki sé verið að fylgja áætlun um ofanflóðavarnir og hvort ekki megi örugglega sjá þess merki að stjórnvöld séu að efla og hraða gerð ofanflóðavarna um landið. Einnig vildi ég spyrja hvort áætlun um uppsetningu vöktunar vegna ofanflóða hafi verið uppfærð í ljósi breyttra aðstæðna á veðurfari.