Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:01]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef átt samtöl um nýsköpun við fjölda fyrirtækja, fjölda aðila í fjárfestingum, sendiherra frá öðrum löndum og erlenda aðila sem hafa áhuga á að koma til Íslands. Það sem þeir segja er að Ísland skorti ekki fjármagn en Ísland þurfi miklu meira af hæfu og vel menntuðu vinnuafli og það sé mesta hindrunin í nýsköpun á Íslandi. Þetta heyri ég í öllum samtölum og hvert sem ég fer, að aðgengi að erlendum sérfræðingum og að auðveldara verði að ráða fólk utan Evrópu til Íslands sé það mikilvægasta svo fyrirtækin geti stækkað hér og velji að vera hér áfram.

Ég setti þetta í forgang í mínu ráðuneyti til að tryggja samkeppnishæfni okkar og hún hefur verið á mikilli uppleið. Við sjáum það í öllum nýsköpunarmælikvörðum að við höfum verið á uppleið þegar kemur að samkeppnishæfni okkar á þessum stöðum. Fólk velur Ísland fyrir margar sakir og hér sjáum við stórfyrirtæki blómstra. Í morgun veitti ég Vaxtarsprotann til fyrirtækis sem hefur tífaldað veltu sína á síðustu þremur árum, Controlant, sem starfar hér með mörg hundruð manns og víða annars staðar um heiminn, en forsvarsmenn þess sögðu að það væri út af umhverfi nýsköpunar sem væru þau á þessum stað í dag.

Ég mun leggja mig alla fram við að bæta samkeppnishæfni íslenskrar nýsköpunar og hugvits. Ég hef fulla trú á því að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.