Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 3. fundur,  15. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[20:24]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mig langar að taka þetta aðeins lengra. Nú lítur út fyrir fækkun ársnemenda í mínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi. Það leiðir af sér minni framlög til skólanna og því er spurningin hvernig þeir eiga að bregðast við því. Að einhverju leyti var þessu svarað áðan með því að verið sé að setja fjármagn til hliðar. En ég vil bara benda á að sértekjur skólanna eru nánast eingöngu í gegnum innritunargjöld en ríkið ákveður upphæð þeirra sem verið hefur óbreytt árum saman. Því langar mig að lokum að spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að hækka innritunargjöld á nemendur og velta þannig yfir á þeirra herðar þeirri lækkun sem sjá má í fjárlagafrumvarpinu?