Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:05]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegur forseti. Það vekur athygli mína að í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu umfram launa- og verðlagsbreytingar á fjárheimildum til réttaraðstoðar en undir það fellur gjafsókn. Almenn tekjumörk gjafsóknar einstæðinga eru nú 3.854.000 kr. á ári eða 321.000 kr. á mánuði fyrir skatt og hjá einstaklingum í hjúskap eða sambúð samanlagt 5.790.000 kr. á ári eða 480.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Á svo lágum tekjum er einfaldlega ekki hægt að lifa. Því eru afar fáir einstaklingar með tekjur undir þessum mörkum.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á frumvarpi Guðmundar Inga Kristinssonar, samflokksmanns míns, sem verður útbýtt á næstu dögum. Með því er lagt til að tekjumörk gjafsóknar í skaðabótamálum vegna líkamstjóna verði færð upp í meðaltekjur sem í fyrra voru 7.685.000 kr. eða 640.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Einnig væri þörf að hækka þessi viðmið verulega þegar einstaklingar vilja leita réttar síns vegna brota, t.d. atvinnurekenda eða stórfyrirtækja eins og tryggingafélaga eða fjármálafyrirtækja gagnvart persónulegum réttindum þar sem aðstöðumunur er gríðarlegur. Kostnaður vegna málaferla getur verið verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga sem veigra sér því oft við að leggja í málaferli. Það er staða sem dæmi eru um að stórfyrirtæki með lögfræðideildir og mikla fjármuni til umráða hafi nýtt sér til að hreinlega valta yfir einstaklinga. Ég vil því spyrja ráðherra hvort hann telji koma til greina að auka fjárheimildir málaflokksins í því skyni að hækka tekjumörk gjafsóknar, a.m.k. upp að lágmarkslaunum og helst nokkuð hærra, til að ná yfir fólk sem annars getur ekki sótt rétt sinn af fjárhagslegum ástæðum.