Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, staða löggæslunnar í landinu liggur þingmönnum greinilega svolítið þungt á hjarta og ég deili því. Ég hef farið hér, held ég, í nokkuð ítarlegu máli yfir það til hvaða ráðstafana ég greip strax og ég kom í ráðuneytið og þá vinnu sem hefur verið í gangi. Það er mjög ánægjulegt að við skulum vera að fylgja því eftir sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum, að fjölga í lögreglunni. Það eru 85 nemendur og hafa aldrei verið fleiri. Á sama tíma er lögreglan líka að breyta ákveðnum starfsreglum hjá sér og fara í raunfærnimat á þeim sem hafa starfað sem lögreglumenn en hafa ekki lokið skólagöngu og framkvæma raunfærnimat og greiða leið þeirra í gegnum skólakerfið. Það eru t.d. tíu nemendur í þeim farvegi núna og þeim mun fjölga aftur eftir áramót.

Til að leita til fjármálaráðuneytisins og fjárveitingavaldsins um aukin framlög í ákveðna málaflokka hefur mér alla tíð þótt þurfa að vera ákveðinn grunnur af upplýsingum sem liggur til grundvallar, að það sé búið að fara vel ofan í þann rekstur sem verið er að tala um, þar sé búið að greina í hvað vantar meira fjármagn og hvaða skipulagsbreytingar við getum gert til þess að nýta sem best það fjármagn sem til staðar er. Löggæslan í landinu hefur 21,4 milljarða til ráðstöfunar á ári. Það eru miklir peningar. Eftir þessa skoðun, þær skipulagsbreytingar sem eru í farvatninu, þá tel ég að við séum komin með ákveðið leiðarstef í því í samvinnu við lögregluembættin um það hvernig við getum stigið fast til jarðar í þessum efnum. En það er alveg ljóst að við munum þurfa að leita til fjárveitingavaldsins fyrir næsta ár um það að geta fylgt þeim skrefum eftir og þeim skipulagsbreytingum sem fyrirhugaðar eru. En það mun verða gæfuspor fyrir löggæsluna í landinu og borgara landsins.