Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:27]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og óska honum og okkur öllum góðs gengis í að halda áfram með þetta. Mig langar að fara svolítið annað í minni síðari spurningu, þar sem mig langar í fyrsta lagi að fagna því að verið sé að setja peninga í að efla rannsókn og saksókn kynferðisbrota, heimilisofbeldis og annars kynbundins ofbeldis. Ég sá það bara í fréttum í síðustu viku að tilkynningum vegna heimilisofbeldis og annars kynferðislegs og kynbundins ofbeldis hefur verið að fjölga þannig að það er mikil þörf á að halda áfram að hafa fókus í þessum málaflokki.

En mig langar að spyrja, vegna þess að það eru líka settir peningar í áherslu á afbrotavarnir, greiningu upplýsinga og þverfaglega samvinnu til að sporna við skipulagðri brotastarfsemi, þar með talið fjármálabrotum og mansali, hvort þar sé líka verið að vinna með kynjasjónarmið. Ég held að það skipti rosalega miklu máli, þegar verið er að rannsaka skipulagða glæpastarfsemi, að þar sé líka kynjavinkill og bara almennt að alls staðar á borði löggæslu- og dómamála þurfi að hafa kynjavinkil að leiðarljósi því að við höfum svo sannarlega því miður séð að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi er allt of algengt.