Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:36]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svarið. Ég gæti auðvitað haldið áfram að ræða þetta með honum talsvert lengur en ég veit að þingveturinn á eftir að gefa okkur frekari tækifæri til skoðanaskipta, bæði hér í salnum og ekki síst á vettvangi þingnefnda, þannig að við látum það liggja á milli hluta í bili. En mig langar líka að inna hæstv. dómsmálaráðherra eftir fyrirætlunum um að sameina héraðsdómstólana. Það var skipaður starfshópur um þetta og það kemur í framhaldi af ábendingum Ríkisendurskoðunar sem komu fram í skýrslu sem var birt 2020. Þar er sagt að þetta sé skilvirkasta og árangursríkasta leiðin að aukinni samræmingu innan dómskerfisins. Minn flokkur er nú mikill áhugaflokkur um að sameina og einfalda ríkiskerfið og ég vil t.d. skoða með mjög jákvæðum huga áform hæstv. dómsmálaráðherra um að gera breytingar á sýslumannakerfinu okkar eins og fyrirhugað er. Ég veit að þessi starfshópur sem ég vísaði hér til áðan hefur ekki enn lokið störfum. Hann á að ljúka störfum núna mjög fljótlega. Mig langaði til að fá skoðanir hæstv. ráðherra á því hversu mikill til að mynda sparnaður gæti orðið af þessu. Í hverju nákvæmlega felst skilvirknin? Hverju ætlar hann að ná fram með þessum miklu hugmyndum um dómstólana sem ég er hér að vísa til? Og ef tími gefst til hjá hæstv. ráðherra að fara yfir þann ávinning sem menn telja að megi nást þegar kemur að sýslumönnum og jafnvel fleiri stofnunum sem undir ráðherrann heyra.