Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:25]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Halldóru Mogensen kærlega fyrir umræðuna hér í dag. Hún kemur inn á alveg afskaplega mikilvægt atriði í þessari umræðu og það er traust. Ég gæti ekki verið meira sammála þingmanninum um mikilvægi þess. Ég finn að sjálfsögðu eins og aðrir að það er bæði hræðsla og vantraust í hópi margra örorkulífeyrisþega. Ég get haft skilning á því. En spurningin er eins og þingmaðurinn segir: Hvernig ætlar ráðherrann sér að reyna að efla og ávinna sér meira traust? Það hefur ráðherrann verið að reyna að gera, m.a. með því að eiga í mjög virku samtali við heildarsamtök þessara hópa, ekki síst Öryrkjabandalagið. Við eigum reglulega fundi þar sem við förum yfir þau málefni sem eru bæði á dagskránni og fram undan. Ég vil meina að hækkunin sem við gerðum um mitt ár, 3% hækkunin núna í maí, hafi verið skilaboð um það að okkur væri alvara með að vilja fara í þessa vegferð með fólkinu. Ég vil líka nefna að við erum að vinna að innleiðingu og gerð landsáætlunar um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, við vinnum það í mjög þéttu samstarfi við þessa góðu hópa. Ég vil fá að nefna hér að lokum að í ríkisstjórn í morgun vorum við þrír ráðherrar, ég, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra, með minnisblað þar sem við greindum frá því að við erum að hefja vinnu núna við að skoða sérstaklega menntatækifæri fatlaðs fólks, sem ég held að sé gríðarlega mikið réttlætismál.