Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir fyrir spurninguna. Hún spyr hér út í kostnaðarlíkan. Já, það er hárrétt, við höfum rætt þetta DRG-líkan lengi og kallað eftir því og það er vel skýrt frá þessu í fjárlagafrumvarpi, eins og hv. þingmaður kom inn á. Það er verið að setja aukinn þunga í þessa vinnu og þetta er líka forsenda fyrir því að við getum svarað — hv. þingmaður kom inn á það að hún væri ekki að spyrja um fjárþörfina, en þetta er algjör grunnur að því að við getum svarað stóru spurningunni um raunverulega fjárþörf og mönnun, sem er áskorun sem mun bara verða meira krefjandi eftir því sem tímar líða. Það er unnið núna að innleiðingunni í nánu samstarfi við stofnanirnar. Þá er ég að vísa helst til Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri þar sem eru samningar í gangi. Þetta er svokölluð skuggakeyrsla og verður í gangi allt þetta ár og á næsta ári gerum við ráð fyrir því að við getum farið í formlega innleiðingu á stóru sjúkrahúsunum okkar. Nú erum við nýbúin að skipa stjórn á Landspítala og hún hefur tekið þetta verkefni ásamt forstöðumönnum og formaður stjórnar hefur mikla reynslu af þessu kerfi þar sem hann starfar í Svíþjóð. Það mun hjálpa. Þetta kostnaðarlíkan mun ná utan um (Forseti hringir.) sirka 60% af starfsemi sjúkrahúsanna beggja og það mun skipta gríðarlega miklu máli þegar við förum að meta allt umfang í heilbrigðisþjónustu.