Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:25]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir spurninguna og hans ræðu hér. Spurningin um að koma hlutunum í lag. Ég trúi því og fer inn í hvern einasta dag til að reyna koma hlutum í lag. Hv. þingmaður kom hér inn á mönnunina og álagið. Við þekkjum það alveg að við erum með sama fólkið sem fór með okkur í gegnum faraldurinn með því aukna álagi sem var á heilbrigðiskerfið, vissulega einnig á fjármálakerfið eins og hér hefur verið í umræðunni, vissulega á allt samfélagið. En þetta er sama fólkið á og á síðan að leiða okkur áfram þegar við förum á fullt, ferðamennirnir streyma inn, og vinna upp það sem hefur safnast fyrir í kerfinu. Þessu þurfum við að mæta. Þarna erum við að tala um afleiddan kostnað sem verður ekki auðveldlega reiknaður inn í fjárlög eins og við erum að ræða hér. En við þurfum að greina og mæta. Við erum að auka framlögin til sjúkrahúsanna og við erum að auka framlögin til heilbrigðismála. Er það nóg? Það er erfitt að svara því. Við erum alveg heiðarleg með það að okkur vantar meiri gögn og öflugri greiningu á þróuninni og stöðunni varðandi þessa þætti.

Ég vil nefna hér, af því að álagið birtist mjög á bráðaþjónustunni og á bráðamóttökunni okkar sem við höfum öll lært að við getum hlaupið til og fengið þjónustu, að ég setti á fót viðbragðsteymi í upphafi sumars sem fór í fjölmörg úrræði til að létta undir með fólkinu. Viðbragðsteymið mun síðan halda áfram að taka utan um alla bráðaþjónustu í landinu vegna þess að þetta er ekki bara í Fossvogi, þetta er líka á Suðurnesjum, Suðurlandi, (Forseti hringir.) fyrir norðan o.s.frv. Ég verð að koma að samningunum sem skipta miklu máli í þessu samhengi í seinna andsvari.