Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir þetta. Þetta eru þannig spurningar að það liggur við að ég hefði kannski þurft að horfa í spegilinn og spyrja: Hvar ertu staddur, hvað viltu gera og hvert ertu að fara? Og auðvitað kemur það reglulega fyrir í jafn krefjandi verkefni og þetta er. Hv. þingmaður kemur inn á fjölmörg atriði sem eru einhvern veginn partur af deginum og þú ferð inn í daginn og reynir að gera vel á hverjum einasta degi. Lýjandi? Það má aldrei gefast upp fyrir því að geta bætt hlutina. Við höfum bundið svona um ferlið, þetta stefnumarkandi fjárlagaferli. Við erum búin að ákveða hvernig það er og það er þungt í tímalínu að sækja peninga í tiltekin verkefni. Við erum með kerfi sem er mikið að umfangi og erum að tryggja grunnrekstur. En svo viljum við gera betur á vissum sviðum og þá þarf bara að hafa mikið fyrir því að færa rök fyrir verkefnunum, sækja þau. Við höfum bætt, vil ég meina, og gert vel, ég og forveri minn í geðheilbrigðismálum. En við verðum að geta gert meira þar. Þess vegna nefndi ég í stefnuræðunni geðheilbrigðismálin, forvarnir og lýðheilsu. Við verðum að fara að gera miklu meira þarna til að mæta þessum risaáskorunum í að fjármagna og manna kerfin okkar. Þetta er stóra myndin. Ef mér tekst bara á hverjum einasta degi að færa okkur nær því að gera betur þarna þá er maður alla vega gera eitthvað rétt, af því að þetta var nú svona á tilfinninganótum sem spurt var. En ég átta mig líka á því að það þarf að sækja fjármögnun. (Forseti hringir.) Við erum búin að setja til viðbótar, eins og ég kom inn á hér áðan, 2 milljarða. (Forseti hringir.) Þurfum við meira? Svarið við því er já.