Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[13:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þetta samtal og þessar spurningar. Ég vil halda áfram þar sem frá var horfið í mínu fyrra andsvari af því þetta er auðvitað stórmál og við þurfum einhvern veginn að ná betur utan um það. Ég var kominn inn á þessa opnu og fordómalausu umræðu sem mér finnst einhvern veginn lykillinn að þessu og mér finnst vera til bóta, bæði er varðar geðsjúkdóma og fíknisjúkdóma. Algjört lykilatriði í okkar allra huga er jafnt aðgengi. Við eigum að tala um jafnt aðgengi óháð því hvaða þjónustu við erum að leita eftir. Það hefur kannski vantar svolítið í þessa hugsun um jafnt aðgengi, af því að hv. þingmaður kom inn á hvernig þetta hefur verið að breytast í okkar samfélagi, hvað hóparnir eru ólíkir og þjónustuþörfin ólík þá eftir bæði aldri og kyni og þá verðum við að mæta því í þjónustuúrræðunum, og það er kannski sú vinna sem er í fjölmörgum hópum í ráðuneytinu. Ég get tekið sem dæmi að fíknisjúkdómar meðal aldraðra eru vaxandi áhyggjuefni. Það er t.d. vinna í gangi til að bregðast við því og verið að kanna möguleikann á sérstökum legurýmum. Við erum alltaf að byggja upp hjúkrunarheimili og þau áttu í upphafi bara að vera eins fyrir alla en það er ekki alveg þannig. Það er mikil þörf á sérhæfðari þjónustuúrræðum eftir því hvaða hópa við erum að tala um og þá ber það niður í vinnu margra hópa. (Forseti hringir.) Þetta er áhersluefni í stjórnarsáttmála og það er líka mikil áhersla á þetta lögð í okkar ráðuneyti.