Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:34]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er náttúrulega í grunninn ekki mjög hjálplegt að bera saman einhverjar handvaldar upphæðir í efnahagslífi okkar og ætla með því að segja einhverja stóra sögu. Við getum bara fundið einhverja tölu, eins og tekjur af virðisaukaskatti, eða eins og hv. þingmaður gerir hér, áfengisgjald. Það hjálpar bara ekki neitt. Við getum þá farið að vega og meta lýðheilsusjónarmiðið á móti og hvað þau kosta o.s.frv. En ég vil segja við hv. þingmann, af því að ég saknaði hans reyndar á fundi samráðsnefndar um sjávarútveg í gær þar sem við vorum að ræða hafrannsóknir, að ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það að við eigum ekki að bíða eftir niðurstöðu þessa starfshóps og þessarar vinnu til að gera þær breytingar sem liggja í augum uppi, enda eru mál á minni þingmálaskrá sem fjalla sérstaklega um sjávarútvegsmál, eins og hv. þingmaður veit. En að halda því fram að þær breytingar sem þarf að gera og næst vonandi sátt um að gera á þessu kerfi okkar séu sáraeinfaldar — því hafna ég. Ef svo væri þá væri væntanlega búið að ráðast í þær breytingar. Það er sannarlega rétt að við erum kosin á þing vegna þess að við aðhyllumst pólitísk sjónarmið sem við leggjum síðan í dóm kjósenda og könnum stuðning við einstakar áherslur, en um leið þegar við förum í framboð og myndum ríkisstjórnir þá leggjum við líka til grundvallar ákveðna nálgun, ákveðin vinnubrögð. Ég hef gert það og ég hef lagt áherslu á það að sum verkefni eru af þeirri stærðargráðu að við eigum að leggja töluvert á okkur til að freista þess að ná breiðri samstöðu um raunverulegar umbætur þegar um er að ræða eign þjóðarinnar. Aðferðin sem snýst um það (Forseti hringir.) að setja undir sig hausinn og hafa bara sínar eigin skoðanir að leiðarljósi hefur ekki gengið sérstaklega vel.