Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:10]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er gott að við skiptumst á að rifja upp gamla tíma og góðar ræður frá fyrri tíð og ég veit að hv. þingmaður heldur sig líka við þá afstöðu sem hann hefur löngum haft og það sama gildir um þá sem hér stendur. Mín afstaða er í meginatriðum sú sama og verið hefur og ekki síst í því að við þurfum að tryggja sátt um sjávarútveginn í íslensku samfélagi. Það hefur ekki breyst. Hv. þingmaður rekur hér að það skorti upplýsingar um mín áform í þessu efni. Ég tel að það sé nokkuð ljóst að mín áform séu að tryggja að raddir sem flestra nái að borðinu í þeirri umræðu sem hér er undir. Við erum að tala um mjög djúpstæðan ágreining í samfélaginu til áratuga og það dugar ekki í slíku verkefni að neyta aflsmunar, hvort sem er hér í þinginu eða annars staðar, til að komast að niðurstöðu. Ef við ætlum að komast að niðurstöðu sem getur haldið og lifað af kosningar og ríkisstjórnarskipti þá þurfum við að leggja meira á okkur en svo. Það stendur yfir núna að fara yfir allar hliðar málsins, hvort sem það er framtíðarsýnin er varðar nýsköpun og tækni, hafrannsóknir eða þá fyrirkomulagið á gjaldtöku eða byggðasjónarmiðum. Því verð ég, virðulegur forseti, að svara þessu með þeim hætti að ég held að aðferðin, sú nálgun sem ég viðhef í þessari vinnu, skýri það með nægilega afgerandi hætti að mér þyki mjög mikilvægt að verkefnið gangi vel.