Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:56]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um mikilvægi þess að tengja saman menningu og ferðaþjónustu. Það er í raun og veru meginhugmyndafræðin á bak við hið nýja ráðuneyti þar sem við ætlum að kynna íslenska menningu enn betur fyrir þeim sem sækja okkur heim.

Hv. þingmaður fór yfir alla þá menningarstarfsemi sem er úti á landi. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að við höfum einmitt verið að gera menningarsamning við Akureyri, mjög góðan samning þar sem við erum að styðja við Hof. Við tökum líka þátt í stofnkostnaði húsnæðis víða um land eins og við menningarsali. Núna á næstunni erum við að fara að skrifa undir samning við menningarsal í Skagafirði, sem hefur reyndar staðið til að gera í þó nokkuð langan tíma. En ég held að það gæti verið mjög gott fyrir íslenska ferðaþjónustu og svæðisbundna menningu að vinna nánar í einstaka landshlutum. Eitt af því sem við erum að fara að gera á þessu kjörtímabili er að við erum að fara að skoða sóknaráætlanir sem er búið að gera víða um land og tengja þær enn betur við ferðaþjónustuna og menninguna til þess að efla viðkomandi landshluta. Við finnum að það er mikil eftirspurn eftir slíku hjá ferðaþjónustuaðilum og þeim sem eru í menningarstarfi.