Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Máltækniverkefnið er það sem mig langar aðeins að ræða. Það er leið íslenskunnar til að lifa af innrás stafrænu tækninnar, gera íslenskuna jafngilda ensku og öðrum tungumálum í breyttum heimi. Mikilvægt skref var stigið á sínum tíma af fyrrverandi ráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni, þegar farið var af stað en verkefninu er auðvitað hvergi nærri lokið. Mig langaði til að ræða framtíð þess hér við hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra. Nú þegar fyrsta áfanga máltækniáætlunar stjórnvalda er að ljúka er alls óvíst um framhaldið, áframhaldandi uppbyggingu innviða og innleiðingu á hagnýtingu þeirra fólki og fyrirtækjum til heilla. Á þessum tíma hefur blessunarlega orðið til verðmæt þekking í máltækni og gervigreind á Íslandi og er brýnt fyrir íslenskt samfélag að viðhalda henni. Mér sýnist, þegar farið er yfir fjárlagafrumvarpið, að ekki sé gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu máltæknilausna svo skýrt sé á fjárlögum ríkisstjórnarinnar. Ég get heldur ekki séð annað en að það séu einungis áætlaðar um 200 milljónir í skýrslu- og áætlanagerð. En eins og við vitum þá munu skýrslur einar og sér ekki bjarga íslenskri tungu. Í nýsamþykktri fjármálaáætlun fyrir árin 2023–2027 segja stjórnvöld að þau ætli að leggja áherslu á þróun íslenskunnar á tímum örra breytinga. Um þetta er alveg þverpólitísk samstaða og allir styðja þetta. Þrátt fyrir þessar áherslur er hvergi að finna nákvæmlega þennan stuðning við áframhaldandi uppbyggingu og innleiðingu innviða máltækni fyrir íslensku í þessu nýja fjárlagafrumvarpi. Við munum alveg hvað forseti Íslands sagði við þingsetningu og það var mikilvæg brýning fyrir okkur. En mig langar að fá ráðherra til að útskýra þetta aðeins betur fyrir okkur. Málið er gríðarlega mikilvægt. Íslenskan okkar er undir og þess vegna er mikilvægt að hæstv. ráðherra geri allt til þess að tryggja íslenskunni áframhaldandi líf (Forseti hringir.) og útskýri þetta þannig að við hér í þessum sal róumst og samfélagið allt, því við viljum að þetta verkefni haldi áfram.