Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Við erum með þessa þingsályktun um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands sem gildir fyrir tímabilið 2019–2023 og við erum enn þá á áætlun. Það má kannski segja að næsta tilefni til að horfa til lengri tíma og setja ný markmið verði þegar þingsályktunartillagan um stefnuna inn í framtíðina verður samþykkt hér á þinginu.

Það sem ég nefndi varðandi það að fylgja eftir fjármununum — hv. þingmaður kom aðeins inn á það að sum ríki þykja hafa gengið óhóflega fram og gert alls konar áskilnað um umsvif og viðskipti og fleira þegar þróunaraðstoð hefur verið veitt, og ég held að við þekkjum alveg þessi dæmi — ég er einfaldlega að vísa til þess að við eigum gríðarlega mikið undir því að samhliða auknum fjárframlögum þá byggist upp sérhæfing á þeim sviðum þar sem við höfum hvað mest fram að færa. Ég nota bara þetta einfalda dæmi að í stað þess að senda eingöngu fjármagn inn í fjölþjóðlegar stofnanir þar sem við, eftir atvikum, eigum agnarsmátt hlutfall af starfsliðinu að þá gætum við þess að fjármagni okkar fylgi fólk sem byggir upp þekkingu á grundvelli þess stuðnings sem við erum að veita, sem skilar sér aftur inn í íslensku utanríkisþjónustuna og inn í þróunarsamvinnuna heilt yfir, hvort sem það er tvíhliða til lengri tíma eða inn í þessa fjölþjóðlegu starfssemi. Þetta segi ég vegna þess að það skiptir okkur svo miklu máli að standa á tveimur fótum, fullmegtug í þessu fjölþjóðasamstarfi, að við setjum okkur metnaðarfull markmið um að geta tekið vel upplýstar og vel ígrundaðar ákvarðanir en treystum ekki alfarið á að aðrir leysi málið fyrir okkar hönd inni í risavöxnum alþjóðabyggingum erlendis.