Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[18:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Eftir fimm ára starf kynnir ríkisstjórnin nú fjárlög sem maður skyldi ætla að myndu fela í sér einhverja sýn, einhver pólitísk skilaboð um hvert þessi ríkisstjórn stefnir. Þó að tvö þessara fimm ára hafi verið pólitískt hlé hjá ríkisstjórninni er hún búin að starfa það lengi að við gerðum ráð fyrir því að það kæmu a.m.k. einhverjar vísbendingar um hvert þessi ríkisstjórn ætlar. Það var verulegur skortur á þeim.

Það sem einkenndi umræðuna í 1. umr. fjárlaga var að ráðherrarnir, hver á eftir öðrum, komu og ýmist lýstu því sem þá langaði að gera en þó á mjög óljósan hátt eða sögðu að svo mikil óvissa væri um það sem þeir væru að fást við. Við heyrðum frasa eins og: Við verðum að skoða þetta betur. Eða: Búið er að skipa starfshóp til að skoða þetta. Málið er flókið, það er margt sem við vitum ekki um þetta mál. Allt er breytingum háð o.s.frv. Ráðherra eftir ráðherra kom hér til að svara fyrir sinn þátt í fjárlagafrumvarpinu án þess að vita hvert stefnt væri og í flestum tilvikum án þess að geta lýst eigin skoðunum á því hvert ætti að stefna. Þetta er ófremdarástand eftir fimm ára ríkisstjórnarsamstarf. En á meðan ráðherrarnir eiga erfitt með að lýsa sinni pólitísku sýn eða stefnu þá sjáum við að stóra myndin er sú að ríkisstjórnin heldur áfram að stækka báknið og eyða meiri peningum en áður. Allir sýndu því skilning, a.m.k. allir þingmenn, á Covid-tímanum þegar ríkisstjórnin bað sér griða og sagði að nú þyrfti að slaka á hvað varðar kröfur um ríkisútgjöld og mætti svo á allmarga fundi til að státa sig af því hvað hún ætlaði að verja miklum peningum í að takast á við ástandið. En iðulega fylgdi sögunni að þetta væri tímabundið. Þótt um væri að ræða háar upphæðir þá væri þetta bara tímabundið og svo tæki við tímabil þar sem við myndum spara og greiða niður skuldir sem búið væri að byggja upp á þessum tíma. En í þessum fjárlögum sjáum við að þetta varð ekki raunin og stóð kannski aldrei til. Í stað þess að þessi miklu viðbótarútgjöld ríkisins við að takast á við heimsfaraldur, stóra krísu, væru tímabundin þá virðumst við hafa sett nýtt viðmið í ríkisútgjöldum. Það reynist erfitt að útskýra hvers vegna þetta er raunin.

Hæstv. fjármálaráðherra vísaði hér við upphaf umræðunnar í skýrslu eða ritgerð eftir Kristínu Ólafsdóttur í leit að svari við því hvað hefði gerst. Þar var fjallað um hversu mikill launakostnaður ríkisins væri. Það er vissulega rétt að hann eykst rétt eins og launakostnaður fyrirtækja í landinu en hann eykst þeim mun meira sem ríkisbáknið stækkar. Það hefur stækkað í tíð þessarar ríkisstjórnar að því marki að það hefur aldrei verið stærra. Eftir höfðinu dansa limirnir, því að ríkisstjórnin hefur ráðið til sín fleiri aðstoðarmenn og fleira fólk í ráðuneytin til að hjálpa sér með sína pólitík en dæmi eru um í sögunni, nýtt allar heimildir upp í topp og meira til og fyrir vikið horfum við fram á áframhaldandi skuldaaukningu ríkissjóðs en þó án fjárfestingar eða sýnar um hvernig megi vinna hana niður.

Það er aldeilis ekki allt slæmt sem hæstv. fjármálaráðherra hefur gert í sinni tíð. Hann hefur unnið mörg afrek, eins og ég hef alloft nefnt hér í ræðustól, en hann á við vanda að etja þegar hann situr í ríkisstjórn með flokkum sem mynduðu ekki stjórn um einhverja sameiginlega pólitíska stefnu og sýn heldur um að skipta á milli sín ráðherrastólum og nýta þá sem best, hver á sinn hátt. Þetta birtist greinilega í umræðunum um þetta fjárlagafrumvarp þar sem ráðherrar og talsmenn flokka koma hingað upp, ekki sérstaklega til að verja stefnu ríkisstjórnarinnar á þann hátt sem hún birtist í fjárlögunum eða í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, heldur til að segja okkur hvað þá langar helst að gera. En margir voru reyndar mjög óvissir um það.

Tökum dæmi: Hæstv. innviðaráðherra talaði um gjaldtöku af umferð á jafn óskýran hátt og hann hefur gert frá því að hann tók við embætti. Svo eru það húsnæðismálin. Þrátt fyrir að hæstv. ráðherra væri nýkominn af fundi til að tilkynna um einhverjar tugþúsundir íbúða gat hann á engan hátt útskýrt hvernig þetta yrði fjármagnað eða hvernig þessu yrði hrint í framkvæmd. Hann hafði notið þjónustu kynningarteymis borgarstjórans en rétt eins og í borgarstjórn virtust menn meta sem svo að það væri óþarfi að sýna hvernig hlutirnir væru gerðir heldur væri nóg að sýna myndir um hvað menn langaði að gera. Við sjáum líka dæmi um að þrátt fyrir þennan mikla útgjaldavöxt er ekki fjárfest í því sem myndi skila okkur hvað mestum árangri og hagvexti til framtíðar. Þar má nefna iðnnám, sem er sorgarsaga. Eftir áratugi af yfirlýsingum stjórnmálamanna um að við þyrftum að finna einhverja leið til að efla iðnnám og fá fleiri nemendur í iðngreinar þá er ár eftir ár, hundruðum áhugasamra iðnnema hafnað vegna þess að ekki eru settir peningar í þá fjárfestingu í framtíðarvexti samfélagsins og draumum þessa fólks.

Hæstv. dómsmálaráðherra tilkynnti þinginu um nýútkomið mat ríkislögreglustjóra á því að það væri hættuástand á landamærunum vegna þess að aðstreymi hælisleitenda af hinum ýmsu ástæðum væri orðið svo mikið að kerfið réði ekki við það. Þetta var fyrirséð, frú forseti, og hefur ítrekað verið varað við þessu. Rétt eins og hæstv. ráðherra viðurkenndi í raun er um að ræða afleiðingu af þeirri stefnu sem rekin hefur verið í þessum málaflokki, af þeim skilaboðum sem íslensk stjórnvöld hafa sent út með því að bjóða hér þjónustu, fresti og annað sem gerir Ísland að vænlegri áfangastað en aðra, m.a. fyrir glæpagengi sem skipuleggja smygl. Og það gerir okkur erfiðara fyrir að aðstoða fólk sem þarf mest á hjálpinni að halda.

Forgangsröðun í útdeilingu fjármagns hlýtur alltaf að þurfa að vera grundvallaratriði þegar menn semja fjárlög. Hér er ekki hugað að forgangsröðun um hvernig við getum sem best hjálpað fólki í vanda erlendis. En það er ekki heldur hugað nógu vel að forgangsröðun um hvernig við hjálpum sem best fólki innan lands. Svör hæstv. heilbrigðisráðherra voru út og suður en reyndar flest á þann veg að málið væri í skoðun og það væri búið að skipa starfshópa. Það hefur ekki enn tekist að laga heilbrigðiskerfið að því marki að verulegar viðbætur í fjármögnun ár eftir ár skili betri þjónustu og betri heilsu landsmanna. Ég hefði gjarnan viljað fara yfir athugasemdir fleiri ráðherra en tími minn er á þrotum. Allt var þetta, frú forseti, á sömu bókina lært. Stundum voru þetta yfirlýsingar um hvað ráðherrann langaði að gera en iðulega var þetta allt í skoðun og mikil óvissa ríkti, sem er óásættanlegt þegar ríkisstjórnin kynnir fjárlög eftir fimm ára samstarf, vel að merkja fjárlög sem fela í sér mjög verulega útgjaldaaukningu og að því er virðist uppgjöf fyrir því að takast á við báknið; spara, nýta og forgangsraða fjármagni betur.