Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:09]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Flutningsmenn eru allir þingmenn Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir árslok 2023 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?““ — Svarmöguleikarnir eru já eða nei.

Herra forseti. Þingsályktunartillaga um að fram færi þessi þjóðaratkvæðagreiðsla var áður lögð fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi af hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur þegar aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið stóðu enn yfir. Þingsályktunartillaga þess efnis var einnig lögð fram á 144. löggjafarþingi af hv. þingmönnum Árna Páli Árnasyni, Katrínu Jakobsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni og Birgittu Jónsdóttur þegar ný ríkisstjórn hafði lýst því yfir að viðræðum yrði ekki haldið áfram. Málið á sér því langan aðdraganda og var síðast lagt fram á 152. þingi af þingflokkum Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata.

Með þingsályktun nr. 1/137, sem samþykkt var 16. júlí 2009, ályktaði Alþingi að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Sú þingsályktun er enn í fullu gildi enda hefur hún ekki verið felld úr gildi með annarri ályktun Alþingis. Það er því tilgangur þessarar tillögu til þingsályktunar að fylgja eftir þeim vilja Alþingis sem endurspeglast í þingsályktun nr. 1/137.

Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu til þingsályktunar um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka í febrúar 2014 vakti það hörð viðbrögð almennings. Alls skrifuðu 53.555 manns undir áskorun um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar. Þáverandi ríkisstjórn brást ekki við kröfu meira en fimmtungs kosningarbærra manna, þrátt fyrir eindregin kosningaloforð Framsóknarmanna og Sjálfstæðismanna þar um.

Herra forseti. Það eru fjölmörg efnahagsleg, menningarleg, lýðræðisleg og söguleg rök sem hníga að því að nauðsynlegt sé að gefa íslensku þjóðinni kost á því að láta í ljós vilja sinn um áframhald á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þá er óhætt að segja að það hafi orðið vatnaskil í umræðunni um stöðu Íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu. Viðbrögð nágrannaríkjanna við breyttri stöðu heimsmála hafa verið afar skýr. Í Danmörku var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla og samþykkt að falla frá fyrirvörum landsins um að taka fullan þátt í varnarmálasamstarfi ESB. Að sama skapi varð innrásin til þess að Svíar og Finnar sóttu um aðild að NATO og margt bendir til að þau verði þar innan borðs innan skamms. Þetta þýðir með öðrum orðum, herra forseti, að Danir, Svíar og Finnar, verða nú samstiga á vettvangi bæði NATO og ESB í varnar- og öryggismálum og umræða er þegar hafin í Noregi um hvort ástæða sé til að endurskoða stefnu landsins varðandi ESB-aðild, en eins og kunnugt eru Norðmenn burðarás EFTA-stoðarinnar í EES. Íslendingar þurfa að taka ákvörðun um það hvort þeir telji sig eiga samleið með frændþjóðum sínum og helstu viðskiptalöndum á tímum vaxandi viðsjár í Evrópu. Það er auðvitað alveg ljóst að NATO-aðildin veitir okkur hernaðarlegt skjól gagnvart utanaðkomandi ógnum en hitt blasir líka við að þessari ógn verður aldrei eingöngu mætt með hernaðarmætti heldur einnig með samstöðu um lýðræðisleg gildi og virðingu fyrir mannréttindum ásamt því að standa vörð um menningarverðmæti og hlúa að leikreglum á markaði.

Flutningsmenn telja því mikilvægt að Ísland verði strax frá byrjun með í áætlunum Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum með þeim þunga sem fylgir fullri aðild að sambandinu. Því myndi jafnframt fylgja frekari öryggistrygging gagnvart þeim áhættuþáttum sem landið er annars illa tryggt fyrir, einkum hvað samfélagsöryggi varðar. Án aðildar að ESB njóta Íslendingar ekki slíkrar tryggingar, líkt og fram kemur í ábendingum í þverfaglegri áhættumatsskýrslu frá 2009 sem unnin var í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins.

Það er mat flutningsmanna að áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið sé svo viðamikið hagsmunamál að ekki komi annað til greina en að leita leiðsagnar þjóðarinnar um framhald þess. Auk þeirra mikilvægu röksemda er lúta að efnahagslegum stöðugleika, bættum vaxtakjörum og fjölmörgu öðru hníga einnig sterk rök að því að Ísland taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu vegna nýs veruleika í heimsmálum og öryggis- og varnarmálum, eins og fram kom áður.

Að öllu framangreindu sögðu telja flutningsmenn brýnt að þingsályktunartillaga þessi verði afgreidd á 153. löggjafarþingi og undirbúningur hafinn fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verði fyrir árslok 2023.

Herra forseti. Þannig hljómar greinargerð með þingsályktunartillögunni og mig langar að bæta við nokkrum orðum. Ég vil ítreka það að ég tel að þetta mál sé af þeirri stærðargráðu að þjóðin eigi að ráða því hver næstu skref verða. Fari svo að samþykkt verði að halda þessum viðræðum áfram þá mun þjóðin síðan greiða atkvæði á ný um hugsanlega inngöngu á grundvelli þess samnings sem mun liggja fyrir. Ég tel það þurfi miklu meiri og yfirvegaðri umræðu um kosti og ókosti fullrar aðildar að Evrópusambandinu og við höfum látið um of bæla niður upplýsta umræðu um sambandið og látið stjórnast af tröllasögum um meint ofríki Brussel-veldisins, eða hverjum dettur það í hug að Hollendingar, Danir, Svíar, Írar eða Lúxemborgarar séu ekki fullvalda og sjálfstæðar þjóðir? Þeim hefur vegnað vel í þessu ríkjasambandi og dettur auðvitað ekki í hug að segja sig úr því.

Mörgum er það mikið kappsmál að þjóðin fái ekki að kynna sér málið og alls ekki vita hvað kann að felast í fullri aðild með upptöku. Þá er talað um að ekki sé hægt að kíkja bara í pakkann eins og aðild að Evrópusambandinu sé jólagjöf en það væri mjög sérkennilegt að skoða ekki í þaula hvað fælist í slíkum samningi áður en þjóðin greiddi atkvæði um endanlega aðild eða afskrifa hana, áður en þjóðin kemst að því hvað mögulega felst í því. Það er líka stundum talað um að Evrópusambandið sé stórveldi sem ásælist auðlindir okkar Íslendinga og vilji leggja hér allt undir sig. Staðreyndin er hins vegar sú að hér er um að ræða bandalag fullvalda ríkja sem koma sér saman um tilteknar leikreglur á markaði sem allir verða að gangast undir og virða, bæði ríkar þjóðir og snauðari, stærri og smærri, herveldi og vopnlaus ríki. Það eitt og sér gefur smáþjóð eins og Íslendingum ómæld tækifæri til að hafa áhrif og láta að sér kveða á alþjóðavettvangi langt umfram það sem stærð okkar segir til um. Við sitjum þá við borðið með hinum þjóðunum þar sem ákvarðanir eru teknar í stað þess sem nú er, að taka við því sem að okkur er rétt gegnum, EES-samninginn, sem þó er auðvitað gríðarlega mikilvægur. EES-samningurinn hefur vissulega orðið til að bylta lífskjörum hér á landi og rekstrarumhverfi og neytendavernd til hins betra. Við höfum fengið í gegnum hann miklar umbætur í vinnurétti, neytendarétti, umbætur í umhverfisvernd og svona gæti ég haldið áfram að telja. En á honum er samt sá ókostur að við tökum afskaplega lítinn þátt í að setja þær reglugerðir og lög sem hingað berast á fyrstu stigum þótt vissulega getum við haft áhrif á seinni stigum, sótt um undanþágu því að eitthvað eigi ekki við á Íslandi eða jafnvel að þráskallast við að innleiða hlutina og tefja málin aðeins. Nei. Hagsmunum Íslands er betur borgið við borðið auk þess sem það er ekkert launungarmál að EFTA-stoð EES er langmest borin upp af Norðmönnum. Það er ekkert of gott að setja traust sitt á aðra þjóð þó að Norðmenn séu auðvitað mikil vinaþjóð okkar.

Herra forseti. Það bendir flest til þess að efnahagslegur ábati fyrir almenning verði umtalsverður við upptöku evru. Vextir verða hér eins og víða tíðkast í Evrópulöndum mjög lágir svo fólk getur allt í einu farið að gera áætlanir um fjármál langt fram í tímann, ráðist í stærstu fjárfestingar ævi sinnar, húsnæðiskaup, án þess að þurfa að vera að taka áhættu sem það nú býr við eða reikna út hvort sé betra að taka verðtryggð eða óverðtryggð lán. Hið sama gildir um rekstrarumhverfi flestra fyrirtækja. Mörg þeirra stærstu nýta nú evruna sem gjaldmiðil en þau smærri geta það ekki.

Herra forseti. Við Íslendingar eigum samleið með lýðræðisríkjum Evrópu sem hafa bundist þessum samtökum í Evrópusambandinu. Við erum Evrópuþjóð, menningararfur okkar er evrópskur og við eigum að vera með í þessari stórmerkilegu tilraun sem komið var á fót í álfunni í kjölfar tveggja mannskæðra styrjalda, tilraun sem snýst um að vinna saman við úrlausn mála frekar en að láta hernað að skera úr, semja um mál frekar en að stríða um þau, takast á og rökræða frekar en að kúga og berja niður. Um þetta er nú tekist á í álfunni þegar Rússar hafa ráðist inn í Úkraínu og sýnt okkur öllum fram á það hversu heimskuleg og eyðileggjandi slík leið er til að fá vilja sínum fram. Valkostirnir eru sérlega skýrir um þessar mundir. Ég er í sjálfu sér ekki í vafa um það í hvora sveitina við Íslendingar eigum að skipa okkur. Hins vegar geri ég mér vel grein fyrir því að á þessu máli eru margar hliðar og á þessu máli eru hér innan húss, alveg eins og hjá þjóðinni, margar og skiptar skoðanir. En ég átta mig hins vegar ekki á því stærðar málsins vegna af hverju einhver þingmaður ætti yfir höfuð að leggjast gegn því að þjóðin sjálf fái að taka þá ákvörðun.

Virðulegur forseti. Að þessari umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til hv. utanríkismálanefndar Alþingis.