Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:34]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki nú Skagfirðinga ekki neitt sérstaklega af óheilindum og heldur ekki að hafa slæmt minni. En það er náttúrlega með ólíkindum ef þessi tiltekni Skagfirðingur virðist ekki geta haft rétt eftir það sem sagt var tveimur mínútum áður. Ég sagði að auðvitað væri það markmið Íslands í slíkum viðræðum að halda yfirráðum yfir auðlindunum. En ef þetta á að vera forsmekkurinn að umræðunni sem við eigum í vændum þá er best að búa sig undir það og það kemur auðvitað ekkert á óvart miðað við hvað maður hefur orðið var við. Hv. þingmaður sést eiginlega ekki fyrir í ómerkilegheitum þegar hann hefur vísvitandi rangt eftir. Ef hann trúir því ekki að hann hafi gert það þá bið ég hann að fara bara upp og lesa ræðuna.