153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það er aldrei tíminn. Það er aldrei tíminn til að spyrja þjóðina, sérstaklega ekki í málum sem þingmeirihlutinn sættir sig ekki við að fari til þjóðarinnar. Ekki spyrja þjóðina þá því að við treystum ekki þjóðinni. ESB-málið sem hv. þm. Logi Einarsson flutti áðan, fyrsti flutningsmaður þessarar mikilvægu tillögu þriggja flokka, snýst um að leyfa þjóðinni að kjósa um það hvort það eigi að halda áfram viðræðum sem byrjuðu 2009. Þá voru líka raddir innan þingsins sem sögðu að þetta væri ekki tíminn til þess að fara í þennan leiðangur, hvað þá spyrja þjóðina. Ég vil meina það og tek undir það sem hv. þm. Logi Einarsson sagði áðan, að það hafi verið mistök að hafa ekki spurt þjóðina þá. En þá var ég í fyrsta sinn að flytja breytingartillögu um flutningsferlið og ég taldi rétt ásamt Bjarna Benediktssyni, núverandi fjármálaráðherra, að spyrja þjóðina. Við tvö vorum flutningsmenn að því. Sú tillaga var felld. Síðan flutti ég reyndar aftur tillögu 2013, var ein á þeirri tillögu, og hún fékkst ekki rædd. Síðan höfum við Evrópusinnar á þessu þingi flutt á síðasta kjörtímabili tillögur um að halda áfram þessu ferli af því að það er alltaf tíminn til að bæta hag þjóðarinnar og það er alltaf tíminn til að treysta öryggi hennar. Ég vil meina að ekki síst núna í mjög hverfulum heimi þurfum við að endurskoða og endurmeta stöðu okkar út frá hagsmunum þjóðarinnar, út frá hagsmunum og öryggi borgaranna í landinu, hvar Ísland er best statt í samfélagi þjóðanna.

Ég tel mikilvægt að við fylgjum þessari tillögu eftir og það er svo margt sem er undir þegar kemur að Evrópumálum. Ég nefndi það áðan að það er aldrei tíminn. Það má kannski gagnrýna okkur Evrópusinna sérstaklega fyrir það að hafa ekki brýnt skilaboðin okkar betur af því að Evrópumálin snerta líf og hagsmuni fjölskyldnanna og heimilanna í landinu, hið daglega líf fólks þegar það situr við eldhúsborðið og fer yfir reikningana. Nei, bíðið við, reikningarnir af húsnæðisláninu eru búnir að hækka frá síðasta mánuði um 25.000 kr., þeir eru búnir að hækka frá því í nóvember um 80.000. Af hverju er ekki stöðugleiki, spyr fólkið við eldhúsborðið? Af hverju ekki? Af því að það er enn þá þannig að við megum ekki taka stórar ákvarðanir um framtíð okkar. Það er verið að koma ítrekað í veg fyrir það að við höldum áfram að vera meðal fremstu þjóða og hluti af því er efnahagslegur stöðugleiki með traustum gjaldmiðli sem fer ekki upp og niður og heldur fólkinu okkar í spennitreyju. Það er stór hluti af jöfnuði í samfélaginu. Það er stór hluti af því að jafna tækifærin í samfélaginu, ekki bara á milli einstaklinga heldur líka á milli fyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa ekki sömu möguleika og stóru fyrirtækin á að taka lán í erlendri mynt. Þau eru niðurnjörvuð inn í hringinn með almenningi innan íslensku krónunnar. Fyrir vikið spyr fólkið okkar í landinu: Hvernig stendur á þessu? Af hverju er lánið mitt að hækka svona? Það er af því að pólitíkin tekur ekki þær ákvarðanir sem þarf að taka til að ýta okkur áfram út úr þessari hringekju sem við höfum verið í, ekki bara í áraraðir heldur áratugi. Víxlverkanir á milli vaxta og verðbólgu. Ég hélt um tíma að ég væri komin aftur til ársins 1983 þegar við vorum að ræða fjárlögin um daginn.

Þetta er risastórt mál. Það brennur á okkur og ég ætla að vona að aðferðafræðin hjá þeim sem eru á móti því að þjóðin fái að kjósa um framhaldið verði ekki á einhverjum nótum eins og hjá Trump og fleirum, að reyna að búa til einhverja mynd sem er ekki rétt, reyna að tortryggja ferlið allt, tortryggja það að þjóðin fái að koma að þessu, vekja upp óöryggi og ótta. Það er besta leiðin til að koma í veg fyrir að mál fái framgang, að vekja upp ótta og óöryggi. Missum við yfirráðin yfir fiskimiðunum? Nei, við gerum það ekki. Það vill svo til að það er meginregla hjá Evrópusambandinu, sem fellur undir hlutfallslegan stöðugleika, og það vill svo til að við Íslendingar uppfyllum öll þau skilyrði, sem þýðir að við höfum yfirráð yfir okkar fiskimiðum. Gott og vel. Ef það er einhverjar efasemdir, látum þá á það reyna. Við hvað eru menn hræddir þegar kemur að þessu?

Risastórt mál er auðvitað þessi breytta heimsmynd sem ég gat um áðan, öryggismálin. Mér finnst miður að sjá hjá ríkisstjórn sem er til að mynda með Sjálfstæðisflokkinn innan borðs að það eru engin skref tekin. Það er bara lágmarkssamnefnarinn í einhverjum ákvörðunum sem eru teknar bara til að halda í horfinu þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Ekkert hagsmunamat okkar Íslendinga um það hvernig öryggi okkar Íslendinga er betur borgið þegar Evrópa er að dýpka sitt samstarf, þegar Danir fá að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um að vera fullir þátttakendur í ESB, þar með talið varnarhlutanum, af því að heimsmyndin er breytt, af því að Evrópusambandið mun láta meira til sín taka þegar kemur að varnar- og öryggismálum. Svo ætlum við Íslendingar að segja — eyland, smáþjóð sem á allt sitt undir alþjóðasamstarfi, allt sitt undir því að alþjóðasamningar fúnkeri, allt frá hafréttarsamningunum yfir í EFTA-málin, að mannréttindasáttmálar og fleiri fúnkeri — að við ætlum ekki að fara í þetta hagsmunamat. Við ætlum bara að gera það sem ruggar ekki bátnum innan ríkisstjórnar. Það má ekki nefna NATO og náttúrlega alls ekki nefna ESB. Það er bara að nefna snöru í dauðs manns húsi. Það er bara þannig.

Ég hef áhyggjur af þessu, virðulegi forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af því að við séum ekki að fara lengra. Við erum í þessari stöðnun og stöðnun er náttúrulega einkennismerki þessarar ríkisstjórnar. Það má ekkert gera. Má ekkert gera í utanríkis- og varnarmálum þó að það séu beinir hagsmunir okkar Íslendinga að meta það hvernig við getum dýpkað samstarfið og aðkomu okkar innan NATO en líka hvaða hag við höfum af því að vera beinir aðilar að Evrópusambandinu, hvað það þýðir þegar Svíar og Finnar eru komnir í NATO og eru líka í Evrópusambandinu. En við skulum ekki gleyma því að þegar NATO var stofnað var það eitt besta skref í fjölþjóðasamvinnu sem við Íslendingar tókum 1949 að verða fullir þátttakendur, eiga sæti við borðið, af því að þá voru framsýnir einstaklingar hér í pólitík sem sögðu: Það skiptir máli fyrir okkur sem eyþjóð, herlausa þjóð, að vera fullir þátttakendur í slíku alþjóðasamstarfi og varnarsamstarfi. Bandaríkjamenn voru frumkvöðlar að því að koma á Atlantshafsbandalaginu en þeir höfðu líka frumkvæði að því að ýta Evrópuþjóðunum yfir í djúpa efnahagslega samvinnu. Af hverju? Jú, af því að þeir vissu það að ef Evrópa ætlar að standa vörð um lýðræði, viðhalda friði og standa vörð um mannréttindi, þessi grunngildi, þá verða þessar þjóðir að hafa dýpra og meira samband sín á milli. Bandaríkin ýttu Evrópuþjóðunum í þetta af því að þeir vissu það líka að til að fylgja þessu eftir um frið og lýðræði, standa vörð um mannréttindi, þá þyrfti að vera djúp efnahagsleg samvinna og viðskiptasamstarf ríkja. Lífsgæði fólks hanga nefnilega svolítið saman við friðinn. Ef lífsgæði eru ekki góð og óöryggi er til staðar eru meiri líkur á að það verði efnt til ófriðar í slíkum samfélögum.

Við erum einmitt að sjá nákvæmlega það gerast. Hvernig svarar Úkraína þessari stöðu í dag, þeirri óendanlega sáru og erfiðu stöðu sem það merkilega land er í dag, eftir gríðarlegt ofbeldi Rússa eftir innrásina? Úkraína svarar með því að vilja vera fullur þátttakandi að Evrópusambandinu. Þrátt fyrir að gagnrýna megi að Evrópusambandið megi að hafa hraðari hendur í ýmsum hlutum þá telja þeir heildina það sterka og mikilvæga að þeir vilja frekar vera þátttakendur innan Evrópusambandsins því það verndi þá einmitt fyrir ágangi ofbeldisríkja eins og Rússlands. Það tryggir lýðræði, það tryggir frið, það tryggir öryggi borgaranna, sem er grunnskylda okkar sem erum hér í þessum sal, sem okkur ber að tryggja og verja.

Ég er bara rétt að byrja, virðulegur forseti, mína ræðu, það er svo margt eftir. Það er svo margt eftir sem segir okkur af hverju tækifæri þjóðarinnar til að kjósa um Evrópusambandið og framhald viðræðna skiptir okkur öll svo miklu máli, unga fólkið okkar, fólkið sem er að kljást við lánin sín, fyrirtækin okkar, opna markaði, af hverju við viljum vera þátttakendur í opnu, frjálsu markaðshagkerfi, lýðræðislegu samfélagi. (Forseti hringir.) Þess vegna er alltaf tíminn til að treysta þjóðinni til að taka næstu skref og þess vegna styð ég þessa tillögu og (Forseti hringir.) er stoltur flutningsmaður að henni og ég óska þess líka að hún fari til utanríkismálanefndar þingsins.