Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:55]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála því, það var enginn hljómgrunnur hjá kjósendum síðastliðið haust fyrir aðild að ESB. Það var ekki kosið um það frekar en svo oft áður.

En í þessari seinni umferð langaði mig til að spyrja hv. þingmann að öðru. Ég vil ekkert vera að ráðleggja ykkur ESB-sinnum um of um hvernig þið eigið að haga ykkar málflutningi en ég held að það séu ekkert allt of margir í dag sem tengja öryggis- og varnarhagsmuni við veru í ESB, ég vildi svona lauma því að ykkur. Það er vissulega mjög jákvætt að Evrópusambandið skuli vera að sýna þessum málaflokki aukinn áhuga, okkur til hagsbóta eins og öðrum. En mig langar til að hv. þingmaður skýri betur fyrir okkur þessa gríðarlegu öryggis- og varnarhagsmuni sem við höfum af inngöngu í ESB. Er ekki rétt hjá mér að innan við 20% af getu Atlantshafsbandalagsins, sterkasta varnarbandalags heims, sem við erum stofnaðilar að, sé innan Evrópusambandsins? Mig langar líka að spyrja: Eru ríkin við Norður-Atlantshaf, Bretland, Ísland, Noregur, Færeyjar, Kanada, Bandaríkin, ríki sem eru að skoða þess háttar samstarf eða inngöngu í ESB?