Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:09]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Þótt mér finnist sannarlega að við gætum verið að ræða hérna margt þarfara en aðild að Evrópusambandinu þá verð ég að viðurkenna að mér finnst það bara virkilega gaman. Þegar ég var aðstoðarmaður utanríkisráðherra á síðasta kjörtímabili kom ég mjög gjarnan hingað í þingið til að fylgjast spennt með umræðum um utanríkismál og umræðum um Evrópumál og það fór frekar lítið fyrir ESB-þingmönnunum okkar og umræðu um Evrópusambandsmál. Þannig að hingað erum við a.m.k. komin að ræða þessi mál. Evrópusambandssinnar hér, sem hafa reyndar reynt að endurmerkja sig sem Evrópusinnar, eru auðvitað þekktir fyrir að reyna að koma ESB-aðild á dagskrá, vanalega við litlar undirtektir. Í upphafi árs reyndu ESB-þingmennirnir að tengja umræðuna um efnahagsstöðuna hér við ESB-aðild og þegar stríð braust út í Evrópu var það notað sem átylla, sem mér þótti reyndar ósmekklegt, ekki síst í ljósi afstöðu forysturíkjanna undanfarinn áratug og reyndar löngu eftir að innrásin hófst. Þegar ESB-sinnarnir áttuðu sig á því að tengingin við stríðið í Úkraínu var þeim ekki hagfelld nema þótt síður væri var það aftur efnahagsástandið.

Víkjum að greinargerð tillögunnar sem við ræðum hér í dag og byrjum á þremur punktum sem ég vil gjarnan bregðast við. Í fyrsta lagi er það skemmtileg nýbreytni að flutningsmenn beri það fyrir sig að þeir séu að fylgja eftir vilja Alþingis frá árinu 2009. Ég hef ákveðinn skilning á því að seilast svo langt í röksemdafærslunni þegar maður hefur veikan málstað að verja og það er auðvitað ljóst að vilji Alþingis árið 2022 stendur alls ekki til að sækja um aðild að Evrópusambandinu. En af hverju að velja árið 2009? Af hverju ekki 2015? Af hverju ekki 1989 eða kannski bara árið 1993 þegar við samþykktum lög um Evrópska efnahagssvæðið?

Í öðru lagi er fullyrt í greinargerð, með leyfi forseta, „að vatnaskil hafi orðið í umræðunni um stöðu íslands í Evrópu með innrás Rússa í Úkraínu“. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að þau vatnaskil hafi helst orðið að forystumenn Evrópusambandsins hafi orðið uppvísir að hryllilegri vanrækslu og vangá með því að hafa aukið viðskipta- og hagsmunatengsl við rússnesk stjórnvöld þrátt fyrir ógnartilburði og árásargirni þeirra og að innrásin hafi opnað augu okkar og þeirra fyrir því í hversu skelfilegri stöðu Evrópusambandið er vegna þessa. Það er ömurlegt að hugsa til þess að Evrópa hafi verið að fjármagna stríðsrekstur Pútíns með olíu- og gaskaupum. Við urðum sömuleiðis vör við það nýlega að sumar Evrópusambandsþjóðir hefðu notað undantekningu sem var sett í viðskiptaþvinganir ESB til þess að selja Rússum vopn þrátt fyrir bannið sem var komið á eftir innlimun Rússlands á Krímskaga. Þar fóru öflugustu forysturíki ESB, Þýskaland og Frakkland, fremst í flokki. Þetta er nú öll samstaðan. ESB-sinnum er hreinlega ekki stætt á því að ræða inngöngu í ESB á grundvelli öryggishagsmuna.

Í þriðja lagi segja flutningsmenn að við þurfum að ákveða okkur hvort við eigum samleið með frændþjóðum okkar og helstu viðskiptalöndum og að með inngöngu sýnum við, með leyfi forseta, „samstöðu um lýðræðisleg gildi og virðingu fyrir mannréttindum, ásamt því að standa vörð um menningarverðmæti og hlúa að leikreglum á markaði“. Evrópusamstarf okkar stendur föstum grunni. Við eigum í nánu samstarfi og samvinnu við Evrópu, m.a. í gegnum EES-samstarfið, og við erum aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu. Við eigum víðtækt samráð við norrænu vinaþjóðir okkar, m.a. á vettvangi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar, og við Eystrasaltsþjóðirnar, m.a. á vettvangi NB8-samstarfsins. Við erum í öflugasta varnarbandalagi heims með þessum þjóðum og eigum þar að auki náði varnarsamstarf, m.a. við Norðurlöndin og við norðurhópinn í Evrópu. Svona mætti lengi telja.

Hvað varðar röksemdir sem nefndar eru í greinargerðinni varðandi efnahagslegan stöðugleika og bætt vaxtakjör sem fylgja aðild er það efni í sér umræður sem ég fæ vonandi tækifæri til að blanda mér í dag. Mig langar nefnilega að lokum að koma inn á þau öfugmæli að hagsmunum okkar sé betur borgið með því að afsala völdum okkar til Evrópusambandsins, t.d. á sviði fiskveiða. Það væri nær að við þingmenn sem erum hlynntir alþjóðasamstarfi og öllu því sem það hefur upp á að bjóða tækjum höndum saman við að verja EES-samstarfið okkar. Samstarfið sem hefur stuðlað að opnu, frjálsu og öflugu hagkerfi. Verja mikilvægasta viðskiptasamning okkar Íslendinga. Hagsmunum okkar er best borgið í EES-samstarfinu utan aðildar að Evrópusambandinu og við ættum frekar að ræða það hvernig við nýtum enn betur ákvæði EES-samningsins til að hafa áhrif á evrópska löggjöf og reglur. Auðvitað gætu ýmsir kostir fylgt aðild að Evrópusambandinu en þeir hagsmunir og réttindi sem við myndum tapa vega miklu, miklu þyngra en þeir kostir. Hagsmunir okkar standa einfaldlega ekki til þess að við framseljum vald frá lýðræðislega kjörnu Alþingi og frá ríkisstjórn til yfirþjóðlegra valdastofnana sambands sem glímir við tilvistarkreppu og þar sem lýðræðishallinn verður sífellt meiri, þar sem sífellt lengra er gengið í kröfu um að afmá þjóðríki og um myndun eiginlegs sambandsríkis. Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Þýskalands kemur þetta markmið m.a. fram berum orðum. Um þetta er meiri hluti Íslendinga sammála mér enda fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir minna en ári síðan þar sem flutningsmenn þessa máls settu ESB-aðild á oddinn og niðurstaðan er skýr: ESB- sinnar fengu samtals áheyrn rétt rúmlega fjórðungs kjósenda. Vilji kjósenda er skýr. Vilji meiri hluta Alþingis er skýr. (Gripið fram í.)