Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:20]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það hefði auðvitað verið afskaplega huggulegt af hv. þingmanni að óska eftir því að við einbeittum okkur að því að ræða efnislega um málið ef það hefði verið eitthvað efnislegt í hennar ræðu varðandi af hverju við ættum ekki að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu eða yfir höfuð gegn Evrópusambandinu. Það getur verið að hv. þingmanni finnist það ósmekklegt að tengja þessa hluti saman, en eins og ég benti á áðan þá er það nákvæmlega það sem allar þjóðir í heiminum eru að gera núna, þær eru endurmeta hagsmuni sína vegna þess að það er bara hlutverk m.a. okkar þingmanna að tryggja Íslendingum öryggi, Danir með þjóðaratkvæðagreiðslu sinni síðasta vor og svo Finnar og Svíar, svo ég endurtaki það nú, með inngönguumsókn í NATO. Í samtölum mínum a.m.k. við þingmenn frá Eystrasaltsríkjunum, Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi þá á þetta endurmat sér stað núna. Þar er töluvert rætt um að þetta sé ekki spurning um annaðhvort heldur hvoru tveggja, vegna þess að NATO er í rauninni hefðbundið varnarbandalag sem tekst á við þær ógnir sem við þekkjum best sem steðja að ríkjum á meðan takast þarf á við hinar nýju fjölþáttaógnir, sem eru allt annars eðlis, með allt öðrum hætti, með fyrirbyggjandi hætti, með eflingu gilda, eflingu lýðræðisfrelsis, mannréttinda og slíkra hluta. Evrópusambandið sjálft hefur sagt, og fjölmargir fulltrúar innan og utan þess, að Evrópa muni taka að sér stærra varnar- og öryggismál hlutverk í framtíðinni.

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála því að Evrópa muni gera það, taka sér stærra pláss í öryggis- og varnarmálum gegn fjölþáttaógnum og hvort það væri ekki æskilegt að við værum þar innan borðs.