Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:23]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mér finnst hv. þingmaður aðeins vera að snúa umræðunni á hvolf. Ég taldi mig vera hingað komna af því að hv. þingmaður vill bera það á borð að við eigum að ganga í Evrópusambandið. Það hlýtur að vera hans drifkraftur fyrir því máli sem hann leggur fram fyrir þingið og ég taldi mig vera hingað komna til að pota í þann málflutning, til að hlusta á rökin fyrir því af hverju við ættum að ganga í Evrópusambandið, af hverju við ættum að setja þetta mál svona ofarlega á dagskrá. Mér finnst reyndar það sem ég hef heyrt hingað til frá hv. þingmönnum sem bera uppi þessa tillögu að þeirra málflutningur sé endurtekið efni í þessu sambandi, mér finnst þetta vera mjög þunnur grautur sem er borinn hér fram.

En hvað varðar aukið hlutverk Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum, þá endurtek ég það bara sem ég sagði áðan: Mér finnst mjög jákvætt að Evrópusambandið sé að hysja upp um sig buxurnar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Ég er alveg opin fyrir því og auðvitað fylgjumst náið með því sem er að gerast í Evrópusambandinu í þessum málum og við ræðum það bara þegar þar að kemur þegar þeir eru komnir á betri stað hvað það varðar. Að sjálfsögðu gerum við það, ræðum það mál í framtíðinni, eins og hv. þingmaður sagði.