Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:41]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að byrja í upphafi þessarar ræðu minnar að víkja að orðaskiptum sem ég átti við hv. þingmann og gamlan vin, Loga Einarsson, fyrsta flutningsmann. Hafi ég haft hann fyrir rangri sök og verið með rangar fullyrðingar þá er mér rétt og skylt að biðja hv. þingmann afsökunar. Mér til varnar þá reyndi ég að hlusta aftur á það sem hann sagði og það sem olli mér áhyggjum var þegar hv. þingmaður sagði, með réttu, að það væri augljóst að Ísland myndi vilja halda forræði yfir fiskveiðiauðlindum sínum. Það þarf ekki að óttast, hélt þingmaðurinn áfram, „að við förum að gefa frá okkur meiri gæði fyrir minni“. Ég róaðist við þetta. En svo kom framhaldið þegar þingmaðurinn benti á, líka með réttu, að í samningum tækjust menn á og best væri auðvitað að báðir færu frá borðinu ánægðir, en að hann treysti a.m.k. þessum þremur flokkum, o.s.frv, jafn vel fyrir því. Ég las út úr þessu að í samningaviðræðum væri hv. þingmaður reiðubúinn að hugleiða það að koma til móts við hugsanlegar kröfur Evrópusambandsins þegar kæmi að fiskveiðiauðlindinni en viðbrögð hans við þeim orðum mínum voru með þeim hætti að sá ótti væri ástæðulaus og ég hefði þingmanninn fyrir rangri sök og ég endurtek afsökunarbeiðni til hans í þeim efnum. Ég er ánægður með það að hv. þingmaður hafi verið jafn afgerandi og hann var í þeirri yfirlýsingu og ég ætla þá að leyfa mér að túlka orð hans sem svo að verði þessi tillaga á annað borð samþykkt þá jafngildi það viðræðuslitum af hendi íslenskra stjórnvalda ef það er ekki ljóst að hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu leiði af sér eitthvert afsal af einhverjum yfirráðum fiskveiðiauðlindanna.

Það liggur þá fyrir, frú forseti, og ég er ánægður vegna þess að ég hafði auðvitað ástæðu til að hafa áhyggjur, ekki bara af fiskveiðilögsögunni, ekki bara af landbúnaði, ekki bara af orkuauðlindum heldur líka vegna þess að þegar viðræðurnar svokölluðu sigldu í strand — í raun árið 2012 og var síðan pakkað ofan í skúffu í janúar 2013, þáverandi utanríkisráðherra vinstri ríkisstjórnarinnar lagði upp í þessa ferð án þess að hafa til þess umboð íslensku þjóðarinnar, við skulum hafa það í huga — þá var það eina sem lá fyrir að það var búið að klára viðræður í svokölluðum 11 köflum í löggjöf Evrópusambandsins. Það stóðu yfir viðræður um 16 kafla, þeim var ekki lokið, og það var búið að móta samningsafstöðu Íslands í tveimur köflum en það voru ekki hafnar viðræður. En það var ekki búið að móta samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda þegar kom að fjórum köflum, þar á meðal landbúnaði og sjávarútvegsmálum. Það eina sem við vissum fram að þeim tíma, vegna þess að ekki voru íslensk stjórnvöld mikið að upplýsa um það hvert markmið þeirra væri í þessum viðræðum, var þessi skýrsla sem ég nefndi hér í andsvari við hv. þingmann, skýrsla Evrópuþingsins, fyrsta skýrslan eftir að aðildarumsókn Íslands var send inn þar sem kom fram að Ísland hafi sett það markmið að halda aðeins hluta af stjórn fiskveiða í sínum höndum. Það voru einu upplýsingarnar sem íslenskur almenningur hafði í höndum þegar þessu var í rauninni sjálfhætt.

Það er alveg rétt sem forveri hv. þm. Loga Einarssonar í formannsstóli í Samfylkingunni, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, margtók fram strax í apríl 2010 opinberlega í viðtali við þýskan blaðamann og aftur í september í útvarpsviðtali á Rás 2, að það væri skynsemi í því að gera hlé á þessum viðræðum. Af hverju? Jú, það var vegna þess að það var engin pólitísk forysta til staðar þegar kom að þessum svokölluðu mikilvægu samningaviðræðum við Evrópusambandið. Það væri betra að setja þetta allt saman á ís en að halda áfram í óvissu um hvert væri stefnt. Þetta var niðurstaða fyrrverandi formanns og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem áttaði sig á því að í óefni væri komið.

Mér finnst líka að talsmenn þessarar tillögu og talsmenn aðildar að Evrópusambandinu — ég get alveg skilið það, það eru ýmis rök sem hníga að því að Ísland eigi aðild að Evrópusambandinu. Það eru bara þyngri rök í mínum huga sem hníga að því að við eigum ekki að vera þar. En við eigum hins vegar að eiga góð samskipti, opin samskipti við Evrópusambandið. Evrópusambandið er einhver mikilvægasti samstarfsaðili sem við eigum. Það skiptir okkur máli að Evrópusambandinu gangi vel eins og að öllum okkar mikilvægu viðskipta- og vinaþjóðum gangi vel. En mér finnst stundum eins og menn skauti dálítið létt fram hjá því þegar forráðamenn Evrópusambandsins lýsa því yfir að það verði engar varanlegar undanþágur veittar, aðeins tímabundnar, aðeins sé um aðlögunarferli að ræða, þá samt sem áður halda menn því fram að það sé hægt að ná einhvers konar sérstökum samningum um orkumál, um landbúnaðarmál, um sjávarútvegsmál og einhver önnur þau mál sem skipta okkur miklu máli. Það gengur þvert á það sem forráðamenn Evrópusambandsins hafa sagt allt frá upphafi og verið algerlega hreinskiptnir við okkur Íslendinga í þeim efnum. Það eru aðrir sem ganga annan veg og telja að þessir forráðamenn Evrópusambandsins séu, hvað? Að segja ósatt, frú forseti? Ég held ekki.

Ég fagna því að tillaga af þessu tagi sé komin fram. Ég held að það sé gott og nauðsynlegt fyrir þingheim eins og allan almenning að vera knúinn til að ræða um hagsmuni Íslands með opnum hætti. Þeir hagsmunir eru breytilegir, því að höfum við kynnst á síðustu mánuðum allhressilega eins og flestar aðrar þjóðir í heiminum, og ekkert er í heiminum óbreytanlegt og við þurfum auðvitað að endurskoða afstöðu okkar til ýmissa mála. Ég reyni að gera það þegar mér berast nýjar upplýsingar en vandi minn er þessi þegar kemur að Evrópusambandinu að rökin fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu í dag eru miklu veikari en þau voru þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar lagði upp í þessa feigðarför 2009 án umboðs frá íslensku þjóðinni — án umboðs — og hafnaði því meira að segja að þetta umboð yrði sótt, meiri hluti þingmanna hér í þessum sal hafnaði því í júlí 2009. Okkur Íslendingum vegnar betur en flestöllum þjóðum Evrópusambandsins. Við erum með lægri verðbólgu en í Evrópusambandinu. Bara í morgun komu upplýsingar um það að framleiðsluvísitala í Þýskalandi hefur hækkað um nær 50% á síðustu 12 mánuðum, 50% hækkun framleiðslukostnaðar í Þýskalandi. Við erum ekki að glíma við það. Við erum ekki að glíma við það, frú forseti. Lífskjör á Íslandi eru betri en í nær öllum öðrum löndum í Evrópu (Forseti hringir.) að undanskildum norrænum frændum okkar og við eigum að vera hreykin af því. Þetta hefur gerst vegna þess að við erum með opið hagkerfi. (Forseti hringir.) Við eigum gott samstarf og opið við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins. Við erum með varnarsamning við Bandaríkin og stofnaðilar að NATO. Okkar hagsmunum er vel borgið.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)