Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:51]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni kærlega fyrir ræðuna. Sjálfstæðisflokkurinn sendir sína öflugustu talsmenn í þessu máli inn í þessa umræðu og ég segi það sama og ég sagði áðan, ég gat alveg gefið mér það að ég yrði ósammála hv. þingmanni rétt eins og ég yrði ósammála hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur. En núna erum við þó a.m.k. komin á þann stað að við erum farin að ræða um Evrópumálin hér í þessum sal og það er einhver aðdragandi að þessari tillögu, þetta er ekki að gerast í einhverju tómarúmi. Aðdragandinn á sér auðvitað margra ára sögu eins og við þekkjum og það verður óvænt U-beygja í þessu öllu saman upp úr kosningunum 2013, eins og ég rakti hér áðan. En það sem mér fannst svo áhugavert að heyra hv. þm. Óla Birni Kárasyni segja var að farið hefði verið af stað í feigðarför og án umboðs. Feigðarför án umboðs, mikil hneykslan í því. Hér er einmitt verið að tala um að veita okkur umboð til að halda viðræðunum áfram og út á það gengur tillagan, að spyrja þjóðina, fá umboð frá þjóðinni til að halda umræðunum áfram. Hafi verið ágalli á því sem gert var hér áður þegar sótt var um aðildina og nota bene, ég er sammála því að það hefði verið betra að spyrja þjóðina, þá er verið að bæta úr því með þessari tillögu. Það er nefnilega orðið tímabært að við Íslendingar fáum að gera eins og 27 aðrar Evrópuþjóðir hafa gert, að taka bara lýðræðislegan slag um þetta í eitt skipti fyrir öll, henda fram rökum og mótrökum og vita hvaða samningur liggur á borðinu. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Er ekki bara ágætt, úr því að við erum að takast á um þetta árum og áratugum saman, að í eitt skipti fyrir öll fái þjóðin að kippa okkur niður úr snörunni og ákveða hvort við höldum áfram viðræðunum og þá eftir atvikum hvort við göngum þarna inn?