Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:27]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er með mikilli gleði sem ég tek til máls við fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu sem ég er ein meðflutningsmanna að en hún er flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar – jafnaðarmannaflokks Íslands, Viðreisnar og Pírata. Ég tel ástæðu til að nefna það hér í upphafi að það er verið að flytja þessa þingsályktunartillögu í fjórða sinn í einhverri mynd. Þó svo að innrás Pútíns í Úkraínu sé auðvitað í brennidepli í umræðunni um stöðuna í Evrópu og í heimsmálunum, valdajafnvægi milli stórvelda, þá er það þó þannig að hér er verið að ræða um að taka upp þráðinn frá því í júlí árið 2009 eða kannski frekar frá árinu 2013 eða 2014, það fer svolítið eftir því hvenær þáverandi hæstv. utanríkisráðherra sendi bréfið til Brussel um aðildarviðræður að Evrópusambandinu.

Ég skil mjög vel að þingmenn komi hér upp, þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gert það ítrekað, og spyrji um samningsumboð, samningsmarkmið og annað slíkt. Ef þessi tillaga verður samþykkt, sem ég vona að hún verði, þá erum við að ákveða að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið. Í aðdraganda slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að sjálfsögðu að fara fram almenn, upplýst umræða um stöðu Íslands í Evrópu, um Evrópusambandið og um hagsmuni okkar, mjúka og harða, ef maður má orða það þannig, í alþjóðasamstarfi og innan Evrópu. Það er hluti af því að boða þjóðaratkvæðagreiðslu. Hluti af því að boða þjóðaratkvæðagreiðslu er að efla lýðræðislega umræðu um tiltekið mjög mikilvægt málefni, vekja fólk til umhugsunar og þátttöku í atkvæðagreiðslunni en líka að fá almenna kjósendur, helst alla, til að hugsa um hvernig þau sjái framtíð Íslands fyrir sér, hvernig þau sjái fyrir sér stöðu Íslands innan Evrópu og í samskiptum við önnur lönd í heiminum.

Þess vegna snýst þessi tillaga um þjóðaratkvæði. Þetta er lýðræðisæfing, en það skiptir líka máli að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu, fari hún fram, sé virt. Við erum auðvitað brennd eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012 og ég skil það alveg þegar almenningur gefur þeim hálfpartinn langt nef, hugsar að þjóðaratkvæðagreiðslur skipti ekki máli eða segir sem svo: Til hvers ættum við að gera það? Það tekur enginn mark á okkur. Það voru auðvitað hörmuleg mistök en í allt öðru máli. Við verðum að láta hug fylgja máli hér og stjórnmálamenn verða að hafa burði til að fylgja lýðræðislega fenginni niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Verði það samþykkt að taka upp þráðinn og halda aðildarviðræðum áfram þá hefur fengist hið pólitíska umboð frá þjóðinni til að halda málinu áfram. Þá verða þeir flokkar að stíga fram sem treysta sér til að veita því máli pólitíska forystu og taka við keflinu. Það er eiginlega eðlileg afleiðing þess ef slíkt yrði samþykkt. Ef því yrði hafnað verðum við sem þá myndum lúta í lægra haldi einfaldlega samþykkja þá niðurstöðu og virða hana af því að hún er fengin með lýðræðislegum hætti og er endanleg á þeim tímapunkti. Við vitum hvernig það hefur verið t.d. hjá frændum okkar í Noregi sem tvisvar sinnum hafa borið aðildarsamning undir þjóðina og í bæði skiptin var hann felldur. Þar var engin spurning um að málið væri lagt á ís og þannig hafa allir stjórnmálaflokkar í Noregi umgengist það, af því að þetta snýst um pólitískt þrek og að virða vilja þjóðarinnar.

Það er auðvitað grundvallarmunur á aðferðafræðinni við þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekna afmarkaða spurningu annars vegar og alþingiskosningar hins vegar. Það hangir ekki alveg saman þegar hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma hér upp og segir annar að það hafi í raun farið fram atkvæðagreiðsla í alþingiskosningunum 25. september 2021 meðan hinn segir nei, það er algjört umboðsleysi í þessu máli. Þetta var gert án umboðs árið 2009. Þetta hangir ekki saman og það sjá allir sem vilja. Ég get alveg staðið hér og viðurkennt að það voru pólitísk mistök af hálfu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, sem þá voru saman í ríkisstjórn, að taka ekki tilboðinu um þjóðaratkvæðagreiðslu sumarið 2009. Þá hefðum við fengið svo skýrt umboð fyrir aðildarviðræðunum og við, þingmenn Samfylkingarinnar, ekki þurft að búa við þá áþján að vera í samstarfi við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð sem lagðist þver fyrir allt sem þurfti að gerast í þeim aðildarviðræðum og væri það allt efni í heila bók. (Gripið fram í.)

Síðan er sagt: Jú, en við höfum EES-samninginn, hann er svo góður og ég er alveg sammála því. Þegar EES-samningurinn var gerður, og hann er rúmlega 25 ára gamall, þá var það sögulegt framfaraspor fyrir Ísland. Margt er hægt að segja um þá ríkisstjórn sem þá var yfir landinu, forsætisráðherra, Davíð Oddsson, utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, en það verður aldrei tekið frá þeim utanríkisráðherra að hafa landað þeim samningi, aldrei. Þar hófust miklar framfarir, opnun á viðskipti og annað, og við fórum kannski ekki vel með allt það sem samningurinn fól okkur. En við höfum lært af því. Því skiptir EES-samningurinn mjög miklu máli en hann er að sjálfsögðu ekki það sama og full aðild að Evrópusambandinu: Sæti við borðið, rödd sem hlustað er á og þarf að heyrast svo hægt sé að gæta hagsmuna okkar eins og við þurfum að gera.

Það væri mjög freistandi að fara hér út í tæknileg atriði sem hafa verið rædd hér í dag. Ég ætla að leyfa mér að geyma það enda vinnst ekki tími til þess. Mig langar samt að lokum að tala um auðlindirnar því að auðvitað skiptir forræði okkar yfir náttúrulegum auðlindum landsins öllu máli í þessu samhengi eins og öðru. Þá væri nú gott að vita til þess ef við tækjum okkur saman hér í þessum sal og samþykktum nýtt auðlindaákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þá værum við búin að leggja mun sterkari grunn undir varnir fyrir íslenskar auðlindir en við höfum núna. Hvers vegna gerum við það þá ekki, ef við meinum eitthvað með því að við munum aldrei láta auðlindirnar eða forræði þeirra af hendi? Við höfum reyndar ekki gengið neitt sérstaklega vel um sumar af þessum auðlindum en það er efni í allt aðra umræðu. Svo er það auðvitað þannig og á ekki að þurfa að ræðast hér á hinu háa Alþingi að innan Evrópusambandsins er samstarf fullvalda þjóða sem hafa full yfirráð yfir sinni heimalögsögu, yfir stjórn á sínum auðlindum og lagasetningu í sínu landi. Það á ekki að þurfa að eyða miklum tíma í umræður um það, af því að þannig er það og mun ekki breytast. Það sem hefur reyndar breyst á síðustu 13 árum er að mjög margt hefur breyst á Íslandi, Evrópu og innan Evrópusambandsins. Eitt af því sem hefur breyst á Íslandi er að við erum búin að koma okkur upp nýrri, risastórri útflutningsgrein sem var varla til með þeim hætti sem hún er núna þegar við sóttum um aðild. Það er ferðaþjónustan, sem vill svo til að er orðin stærsta útflutningsgrein Íslands. Ég hlakka ég til að eiga samtal við þá stóru, mikilvægu atvinnugrein um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu.