Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:39]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég tel blasa við að það væri góð leið til að efla hagsmunagæslu og útvíkka í samstarf á sviði loftslagsmála. Eins og kunnugt er þá er Ísland aðili að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir. Það var ekki sjálfsagt að sú aðild fengist en hún fékkst. Hún skiptir mjög miklu máli fyrir íslenska stóriðju þegar kemur að að loftslagsmálum. Við erum auðvitað að vinna að sömu markmiðum eins og öll ríki sem hafa undirritað markmið Parísarsamkomulagsins. Hins vegar getum við greitt okkur leiðina þangað með góðu samstarfi. Án vafa er hægt að gera það innan Evrópusambandsins.

Til að valda engum misskilningi í umræðunni um loftslagsmálin, hamfarahlýnun og þær aðgerðir sem Ísland og öll lönd þurfa að grípa til, að þá er alveg rétt sem hefur heyrst í umræðunni almennt að nú ættum við að hrósa happi yfir því að vera ekki með sæstreng til Evrópu. Ákvörðun um að leggja sæstreng er viðskiptaleg ákvörðun sem hvert ríki tekur. Enginn neyðir nokkurn til að leggja sæstreng og selja orkuna um hann. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga í þessu samhengi að það erum við sem ákveðum hvernig við förum í okkar loftslagsaðgerðir. Það erum við sem sjáum til þess að landsmarkmið Íslands verði uppfyllt og svo nýtum við allar þær leiðir sem rétt er að fara, ekki svindlleiðirnar heldur þær sem rétt er að fara í samstarfi við aðrar þjóðir og í verkefnum með öðrum þjóðum til að draga úr áhrifum og helst koma í veg fyrir hamfarahlýnun.