Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir hvert orð hjá hv. þingkonu Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur. Íslenska umhverfislöggjöfin hefur svo að segja í heild sinni komið til okkar í gegnum EES-samstarfið. Allar helstu umbætur á sviði umhverfismála í lagasetningu hafa komið þaðan. Stundum hefur verið sagt að við hefðum getað gert þetta allt sjálf, en reynslan sýnir að þarna er búið að leggja í vel ígrundaða, framfarasinnaða og framsækna lagavinnu á sviði umhverfismála og við höfum notið góðs af því, innleitt löggjöfina með okkar hætti og aðlagað hana. Hún hefur sannarlega komið að góðum notum og leitt til mikilla umbóta hér á landi .

Það sama á við um samkeppnismál og neytendavernd sem eru auðvitað grundvallaratriði í bandalagi sem byggir á viðskiptafrelsi. Þá þarf að vera virk samkeppni, virkt eftirlit með fyrirtækjum á markaði þannig að samkeppni ráði en fákeppni og einokun verði undir vegna þess að alltaf þarf að setja hagsmuni neytenda efst. Samkeppni snýst í rauninni ekki um fyrirtækin sjálf, þótt auðvitað gagnist hún þeim. Ávallt þarf að vera andlag í umræðu um vernd almannahagsmuni og hag neytenda. Þar höfum við sannarlega getað sótt í brunn Evrópusambandsins þar sem þessi málefni eru framar en kannski víðast hvar í hinum vestræna heimi.