Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:46]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði að spyrja út í eitt sem ég skildi ekki í ræðu hv. þingmanns varðandi auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Ég vil meina að það gæti grundvallarmisskilnings um svokallaðar aðildarviðræður sem við höfum átt og ættum að eiga við Evrópusambandið og ég tel að það sé m.a. út af rangri þýðingu á hugtakinu „accession to EU“, með leyfi forseta. Það leikur enginn vafi á því að ESB hefur lögfesta stofnskrá og bindandi, óhagganlegan stofnsáttmála. Þessar svokölluðu viðræður ganga bara út á það hvernig við getum aðlagað okkur að þeirra óhagganlegu sáttmálum og á hve löngum tíma. Hvað varðar sjávarútvegspakkann sem ESB-sinnar vilja fá að kíkja í en tókst þó ekki að opna á öllum þessum árum sem við eyddum í aðildarviðræðurnar þá er afstaða forsvarsmanna ESB ljós, eins og hv. þm. Óli Björn Kárason hefur komið inn á. Svo ég vísi í orð fyrrum stækkunarstjóra ESB eru heimildir fyrir tilslakanir einfaldlega takmarkaðar, með leyfi forseta: „Meginreglan er að þjóð eins og Íslendingar skuli fara eftir almennum reglum.“ Því spyr ég hv. þingmann: Telur hún raunhæft markmið að hægt sé að semja við ESB að 200 mílna efnahagslögsaga okkar verði í heild sinni viðurkennd undir stjórn Íslendinga, í andstöðu við sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB og þrátt fyrir að slíkt eigi sér engin fordæmi? Eða vill hv. þingmaður fara í þetta vonlausa verkefni þrátt fyrir betri vitund um annað og leggja í það tíma, kostnað og okkar litlu utanríkisþjónustu? Er það kannski tengingin við auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar eða misskildi ég hv. þingmann?