Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[16:52]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að ég hafi ekki misskilist í umræðunni um auðlindaákvæði. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það þurfi að bæta auðlindaákvæðið í stjórnarskrá Íslands burt séð frá því hvort farið verði í aðildarviðræður við ESB eða ekki að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mikilvægt vegna þess að ég hef oft heyrt sjálf og finnst skiljanlegt að fólk hafi áhyggjur af því að aðrir ásælist auðlindirnar. Ég held að auðlindaákvæðið verji okkur en fyrst og fremst gefur það okkur grundvöll fyrir dómstólum og tryggir sameiginlega eign almennings á sameiginlegum, náttúrulegum auðlindum okkar.

Ég er hins vegar ekki viss um að ég og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir verðum sammála um hagsmunamatið þegar kemur að viðræðum við ESB um sjávarútvegsmál. Þar erum við bara ekki sömu skoðunar. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að staða okkar sé sterk í ljósi reynslunnar, vegna þess að við erum sjávarútvegsland í heimsklassa með mjög vel þróaða grein sem flytur út um allan heim. Staða okkar er mjög sterk í því samhengi og í samhengi við sjávarútveg innan Evrópusambandsins. Auðvitað er það þó þannig að það þarf að semja. Þá þarf að skoða frá öllum hliðum hvernig það er gert en ekkert í fordæmum Evrópusambandsins segir okkur að þar verði ekki hægt að finna lausn. Hv. þingmaður nefndi ráðherraráðið og að það gæti með einu pennastriki breytt þeirri stöðu. Það er ekki útilokað (Forseti hringir.) en sagan segir okkur að ráðherraráðið fer aldrei gegn grundvallarhagsmunum aðildarríkis.