Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:34]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hef mikið verið að velta fyrir mér því sem sumir hafa stundum nefnt í umræðunni um fullveldi Íslands. Ég held að þær þjóðir sem eru innan Evrópusambandsins hafi fullt vald sem slíkar. Þær hafa afsalað sér ákveðnum hlutum en þær ákváðu það líka. Ef til vill kemur það helst inn á það sem var nefnt í ræðum áðan, til að mynda að gera alþjóðasamninga eða viðskiptasamninga við önnur ríki. Evrópusambandið er tollabandalag í þeim efnum og því er það nokkuð sem við höfum fram yfir Evrópusambandslönd, að geta gengið beint til annarra landa og gert við þau slíkt samkomulag, eins og dæmin sanna.

Umræðan um stjórnarskrána hefur verið alls konar. Hv. þingmaður spyr hvort ég styðji að breytingar verði gerðar á stjórnarskránni til að aðlaga hana að því sem EES-samningurinn gerir kröfu um, ef ég hef skilið hv. þingmann rétt. Ég styð það alveg. Ég viðurkenni að ég hef ekki sökkt mér ofan í þá þætti málsins en ég hef margoft heyrt nefnt að þörf sé á að laga einhverja ákveðna þætti. Ég hef samt engar sérstakar áhyggjur af því að sú framkvæmd sem við höfum haft hingað til sé í mikilli andstöðu við stjórnarskrána en þó hafa fræðimenn vissulega bent á að það gæti farið ágætlega á einhverri aðlögun og ég er alveg tilbúin í þá umræðu.