Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og ég fagna því mjög að Píratar séu komnir í umræðuna með okkur um þessa þingsályktunartillögu. Það er tími til kominn. Það var alveg augljóst af ræðu hv. þingmanns og andsvari frá hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson að Evrópusambandsástin er ekki jafn mikil hjá báðum aðilum og það er allt í lagi. Lýðræðisástin og trú á þjóðaratkvæðagreiðslu kom samt greinilega fram hjá hv. þingmanni. Ég ber virðingu fyrir því. Ég viðurkenni að ég var sjálf svolítið á þessum nótum og hugsaði mikið um þetta á sínum tíma, fór í gegnum háskólanám þar sem ég var að rannsaka þetta og fannst þetta mjög spennandi, hvernig við gætum einhvern veginn með upplýsingatækni og öðru dregið þjóðina eða íbúa oftar að borðinu í einhvers konar atkvæðagreiðslu. Ég er ekki á móti því en ég held engu að síður að það ætti að stíga varlega til jarðar. Það er mín afstaða. Nú sjáum við t.d. í Brexit-kosningunum að það er alveg ofboðslega mikil pólarísering sem á sér stað. Það er viss pólarísering líka í Bandaríkjunum og víðar en ég veit ekki hvort breska þjóðin sé einhvern veginn betur sett eftir þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sem vildu vera áfram innan Evrópusambandsins segja bara: Nei, alls ekki því að þetta hefði auðvitað átt að fara hinsegin, á meðan hinir segja: Jú, þetta er miklu betra. En eftir stendur svolítið mikið klofin þjóð. Ég er á þeirri skoðun að við sem gefum kost á okkur í stjórnmálum eigum að taka afstöðu og hafa skoðun. Þess vegna er mín spurning til hv. þingmanns þessi: Hvar telja Píratar að hagsmunir Íslands liggi; innan eða utan Evrópusambandsins? Og hvernig myndi myndu þingmenn Pírata og hv. þingmaður tala í aðdraganda slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu ef þessi þingsályktunartillaga yrði samþykkt?