Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:59]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Við Píratar höfum þá stefnu að við viljum að þjóðin greiði atkvæði um það hvort við eigum að halda áfram viðræðum. Við höfum ekki tekið skýra afstöðu með eða á móti Evrópusambandinu sem flokkur. Það er m.a. vegna þess að við viljum taka upplýstar ákvarðanir. Það gæti alveg verið þannig, ef þessi þjóðaratkvæðagreiðsla fer í gegn, að þjóðin segði já og samningaviðræður myndu byrja og við værum með einhver markmið þar, að við fengjum það kannski út úr þeim samningaviðræðum að það væri ekki samningsgrundvöllur, það væri hreinlega þannig að við myndum tapa öllu því sem við setjum okkur sem markmið. Við vitum það ekki í dag, það er stóra vandamálið. Við viljum að viðræðurnar fari fyrst í gang til að við áttum okkur á því hvort okkur sé betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins.

Hv. þingmenn sögðu að ég elskaði ekki Evrópusambandið jafn mikið og aðrir þingmenn hér. Það er þvert á móti, ég er bara mjög ánægður með margt í Evrópusambandinu. Er ég ánægður með allt? Nei. Veit ég hvort ég myndi vilja fara þar inn eða standa fyrir utan? Ég reyni að taka upplýstar ákvarðanir, ég tel ekki að upplýsingarnar séu til staðar. Þá kom hv. þingmaður inn á það hvað gerðist þegar við þyrftum að taka lokaákvörðunina: Erum við þá að taka nógu vel upplýstar ákvarðanir? Það er hlutverk okkar og stjórnvalda að tryggja að þarna séu ekki misvísandi upplýsingar á ferðinni heldur sé hreint og klárt hvar við myndum standa.