Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:05]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er dálítið hugsi af því að ég er algerlega sammála hv. þingmanni hvað varðar þennan lýðræðislega flöt málsins, en ég verð þó stundum dálítið ringluð í lýðræðisumræðu Pírata. Ég skil hana ekki alltaf alveg. Við höfum ólíka sýn á þetta ferðalag sem þessi Evrópuumræða hefur verið árum saman og ég verð nú að mótmæla því sem sagt er að við þurfum að fara í aðildarviðræðurnar af því að við vitum ekkert nema við klárum einhverja samninga. Við vitum mjög margt. Við vitum mjög margt um Evrópusambandið, strúktúrinn, innri markað, einsleitni, miðstýringu. Við vitum mjög margt. Auðvitað eru einhverjir þættir sem hægt er á einhvern hátt að semja um eða semja sig frá en í grunninn er það ekki. Það vitum við alveg. Það er ekki eins og þetta sé bara óskrifað blað og allir leggi eitthvað til málanna og svo verði einhver málamiðlun. Þannig er það bara ekki. Þess vegna sé ég þetta ekki alveg svona. En varðandi þetta lýðræðislega þá tek ég undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur að þetta kom svolítið í ljós í síðustu kosningum. Flokkar setja ákveðin mál á oddinn og síðan kemur einhver niðurstaða kosninga. Auðvitað lesum við úr því: Ókei, það er ekki áhugi fyrir þessu, það er sterkur áhugi fyrir hinu. Ég vildi bara minna á það að í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs voru 57% þjóðarinnar sem vildu ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Píratar vilja tala um að það sé lýðræðisleg kosning en þeir tala samt fyrir aðskilnaði. (Forseti hringir.) Hvenær er lýðræðið gott og hvenær ekki?