Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:12]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa tillögu til þingsályktunar og það er bara gaman að fá tækifæri til að ræða þetta málefni, Evrópusambandið. Það er kannski eitt af fáu sem ég er sammála í þessari tillögu, þ.e. sú áhersla að kosið sé um það hvort eigi að halda viðræðunum áfram eða ekki, frekar en að setja þær af stað og halda þeim áfram án þjóðaratkvæðagreiðslu eins og var gert síðast. Ég held að það hafi ekki verið sniðugt að fara af stað með þetta svona umboðslítið eins og það var gert þá. En hvað um það. Ég er samt sem áður ekkert endilega fylgjandi þessu máli og af hverju er það? Ef við horfum á stöðuna í dag frá nokkrum sjónarhornum þá held ég að við séum almennt mjög vel stödd með EES-samninginn og hann veitir okkur góðan aðgang að innri markaðnum. Það má segja að við getum valið bestu molana og erum að nýta okkur það. Þó að við séum að gera það þá má eiginlega segja að vandinn við það hvernig við erum að innleiða sumar af þeim EES-gerðum sem við þurfum þó að innleiða — það gerist ekki átómatískt af því að við erum ekki í Evrópusambandinu heldur þurfum við að fara eftir samningnum um það, við höfum örlítið meira svigrúm í að innleiða þær og getum sótt um undanþágur og ýmislegt — og þau vandamál sem hafa komið upp varðandi EES-samninginn, þá held ég að það sé kannski ekki beint hægt að rekja til samningsins sjálfs heldur hvernig við höfum staðið að okkar hagsmunagæslu eða hvernig við höfum innleitt þetta eða farið með samninginn hér heima. Þannig að mikið af þeim vandamálum eða agnúum sem mest eru ræddir hér í umræðunni í okkar samfélagi, t.d. hvernig EES-samningurinn eða Evrópulöggjöf sé að þrengja að okkur eða gera okkur einhvern óleik, eins og oft er í umræðunni, þá er það oftar en ekki út af því að við óskuðum ekki eftir undanþágu eða við innleiddum þetta á strangari hátt en við hefðum þurft að gera og annað slíkt. Því vil ég bara að velta því upp að ef við tækjum þá ákvörðun að ganga alla leið inn í Evrópusambandið, þar sem innleiðingar og annað slíkt yrði meira átómatískt, þá þyrftum við að vera enn þá meira á tánum um það hvernig okkar hagsmunagæslu yrði borgið og vinna þannig. Og ef okkur hefur ekki tekist að gera það fullkomlega með EES-samninginn, hvernig verður það þá í enn þá stærra umhverfi og í enn fleiri málaflokkum? Ég held bara að íslensk stjórnsýsla og íslenskt stjórnkerfi hafi ekki bolmagn, þó að við myndum sitja við borðið, til að tryggja okkar hagsmuni. Það er löngu komið í ljós að Evrópusambandið snýst um hagsmunagæslu hvers ríkis fyrir sig og þegar eitthvað bjátar á í heimalandinu þá eru stóru löndin í Evrópusambandinu ekkert að hugsa um litla Ísland. Það er algerlega á hreinu og það hefur margoft sannað sig í hinum ýmsu uppákomum undanfarin ár. Þannig að þó að við færum inn þá myndum við alltaf þurfa að sýna klærnar og það er mun erfiðara fyrir litla landið heldur en þau stóru. Ég held að það sé alveg skýrt í þessu.

Það er alltaf talað um að þetta sé bara ekkert mál, það sé ekkert mál að halda viðræðunum áfram og sjá hvað er í pakkanum, eins og við vitum ekkert hvað sé í pakkanum. Það liggur náttúrulega algerlega skýrt fyrir. Ég tek líka undir það sem hefur verið nefnt hér fyrr í dag og áður í umræðunni, að það er algerlega galið ef ríkjandi stjórnvöld sem eru á móti inngöngu í Evrópusambandið færu að ræða um aðildarviðræðurnar og sjá hvað er í pakkanum. Svoleiðis var það kannski eða er hægt að líkja að einhverju leyti við ástandið þegar Grikkland og aðrir fóru inn, þá voru samningaviðræður en stjórnvöld þar þurftu ekki að vera búin að uppfylla öll skilyrðin heldur var bara gerður samningur og svo áttu stjórnvöld að innleiða hann eftir að ríkin voru gengin inn. En það gekk ekki eftir. Eftir það hefur Evrópusambandið verið miklu strangara á því að á meðan aðildarviðræður standa yfir þá þurfa þjóðirnar að vera búnar að uppfylla skilyrðin áður en lokið er við samning. Þetta sáum við bara skýrt í aðildarviðræðunum þegar Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu. Þá voru settir hér samningahópar og það byrjuðu strax að sjást merki um það í fjárlögum. Við vorum hætt að ráða algerlega fjárlögunum. Ef við ætluðum að halda aðildarviðræðum við Evrópusambandinu áfram þá þurftum við setja 1 milljarð í að búa til nýtt tollakerfi af því að við þurftum að vera tilbúin með nýtt tölvukerfi fyrir tollinn áður en samningum lyki. Við höfðum ekkert um það að segja. Bara við það eitt að draga umsóknina til baka, eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gerði, þá höfðum við 1 milljarði meira úr að spila í fjárlagagerð. Þetta er bara eitt dæmi og væri hægt að telja upp mörg dæmi. Það átti breyta ýmsu í stjórnsýslumeðferð og öðru slíku. Þannig að það að kíkja í pakkann þýðir að þá er maður búinn að aðlaga sig að Evrópusambandinu og við vitum alveg að það er ekkert gefið eftir af meginstefnunni. Við munum ekkert vera með okkar fiskveiðistjórn, það mun ekki verða þannig. Ég hef sjálfur verið staddur í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þegar þessi spurning kom, hvort við myndum fái að nota okkar fiskveiðiráðgjöf, Hafrannsóknastofnun og annað, til að stýra okkar fiskimiðum og mér er í fersku minni glottið á starfsmanni Evrópusambandsins sem sagði að að sjálfsögðu yrði þetta allt í hinni sameiginlegu stýringu.

Ég held að við séum bara með góða stöðu í dag. Það er ekkert í okkar efnahagsástandi eða í okkar aðstæðum á Íslandi sem kallar á að við þurfum að taka skrefið til fulls inn í Evrópusambandið. Okkur gengur vel núna. Við erum með góðan samning. Það er miklu meira en að segja það að líta í pakkann. Það hefur veruleg áhrif strax. Ég tek undir þá umræðu sem hefur verið hér í dag að það er augljóslega ekki áhugi á að fara að eyða kröftum okkar í að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu sem hér er lögð til.. Málið er einfaldlega ekki á dagskrá þó að ég þakki fyrir að það sé á dagskrá þingsins, það er gaman að fá að ræða þetta. En ég held að það séu önnur og þarfari mál sem við þurfum að sinna. Að sjálfsögðu er hægt að hafa mörg mál í gangi í einu en þetta er bara svo stórt tilfinningamál sem tekur svolítið yfir umræðuna á meðan hún er, þannig að ef það yrði þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta myndi það eflaust taka mjög stórt og mikið pláss í umræðunni sem ég held að væri ekki ráð, ég held að það væri ráð að við myndum taka umræðuna annað. Svo verðum við líka bara að velja vel. Ég er ekki á móti þjóðaratkvæðagreiðslum, ég vil tala við þjóðina en það má ekki ofnota það tæki og það þarf að gera það á réttum tíma og réttum forsendum. Ég ætla ekkert að útiloka að það verði einhvern tímann tilefni til að taka þessa umræðu en ég held að það sé ekki rétti tíminn núna, alls ekki. Það þarf þá fyrst að vera einhver gjörbreytt staða þannig að það sé eitthvað þarna sem við gætum mögulega þurft á að halda eða að eitthvað hafi breyst varðandi EES-samninginn eða annað slíkt sem þarf að koma til svo að við séum að leggja í þessa vegferð. Við eigum að vera spör á þjóðaratkvæðagreiðslur til að ofgera því ekki en við eigum ekki að hika við að fara í þær þegar það á við.