Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:24]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það er niðurstaða hv. þingmanns að hagsmunum íslensks almennings sé best borgið með því að við losnum við sveifluna í íslensku krónunni þá skulum við bara taka það samtal sérstaklega. Ég held að innganga í Evrópusambandið leysi það ekki sjálfkrafa heldur þarf það svo að vera sér ákvörðun að taka þátt í myntbandalagi Evrópusambandsins, sem ekki öll Evrópusambandsríkin eru í, það er alveg sjálfstæð ákvörðun. Við þurfum líka að ræða það hvort við okkur er betur borgið með evruna eða dollarann. Við eigum í viðskiptum með báða gjaldmiðlana og sveiflurnar eru misjafnar, það kemur inn í líka. En ef við berum okkur saman við önnur Evrópuríki þá sýnist mér bara með íslensku krónuna að hagur almennings á Íslandi sé ekkert síðri og jafnvel mun betri en í mörgum Evrópuríkjum, ef við horfum á tengsl gjaldmiðils og atvinnuleysis, verðbólguna. Nú er búið að vera mjög lág verðbólga og vaxtastig hefur farið lækkandi hér undanfarin ár. Þó að verðbólgan sé mjög há á þessu ári og hafi verið þessi misseri þá hefur verðbólgan undanfarin ár verið mjög lág miðað við önnur Evrópuríki meira að segja. Stöðugleiki og staða efnahagsmála er mjög góð hér og mun betri en í mörgum Evrópuríkjum. Þannig að Evrópusambandið og myntbandalag Evrópusambandsins er ekki með einhverja töfralausn sem ég sé að hjálpi íslenskum almenningi í að minnka atvinnuleysi frekar eða auka kaupmátt.