Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég get ekki annað en tekið þátt í þessari umræðu hér við fyrri umr. málsins. Það er rétt að lýsa því yfir að afstaða Miðflokksins til inngöngu í Evrópusambandið er sú og hefur alltaf verið að hagsmunum okkar sem þjóðar sé betur borgið utan sambandsins en innan þess. Mér taldist svo til að á síðasta kjörtímabili hafi verið einn meðlimur í Miðflokknum sem taldi skynsamlegt að fara þá leið sem hér er lögð til og sá hefur fært sig yfir til Framsóknarflokksins þannig að við stöndum alveg sem ein heil fylking í þessum efnum.

En um málið fyrst stuttlega. Það vekur svolitla undrun hjá mér með hvaða hætti orðalag þingsályktunartillögunnar er lagt fram. Hér segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir árslok 2023 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.“

Hér er talað um að þegar aðildarviðræðurnar raunverulega sigldu í strand undir lok kjörtímabils Jóhönnustjórnarinnar á sínum tíma þá hafi það bara verið eins og einhverjir nágrannar hafi átt eftir að gera út um það með hvaða lit ætti að mála girðinguna á milli lóðanna. Þetta sigldi fullkomlega í strand vegna þess að þarna komu menn að flóknu þáttunum sem sneru m.a. að landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Ég kem betur að því á eftir. En áfram að spurningunni sem lögð er til í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta: „Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn …?“ Áfram er orðalagið bara eins og menn hafi farið í kaffi og ætlað að hittast aftur í fyrramálið og klára þetta sem út af stóð. Þetta er auðvitað tóm vitleysa. Þetta var ekki svona. Þetta sigldi allt fullkomlega í strand. Þess vegna var málið afgreitt eins og það var gert af þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, hjá ríkisstjórninni. Síðan í stjórninni sem tók við og sat árin 2013–2016 var engum vafa undirorpið um það hvað það varðar að aðildarviðræðunum var slitið. Ísland var tekið af lista ríkja sem voru í aðildarferli, eða aðlögunarferli er kannski nærtækara að kalla þetta.

Það er gegnumgangandi í gegnum þennan texta, hann er kannski ekki langur en greinargerðin aðeins lengri, að áfram er talað á þeim nótum eins og samningsaðilar hefðu bara farið heim og ætlað að skjótast í sturtu og fá sér kvöldmat og koma síðan til baka og klára þetta. Það er að verða kominn áratugur síðan Össuri Skarphéðinssyni, þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, var orðið fullljóst að þessar viðræður væru sigldar í strand og enginn árangur myndi nást sem yrði ásættanlegur fyrir land og þjóð. Enda má nú Evrópusambandið eiga það að það hefur talað mjög skýrt í þeim efnum hvaða undanþágur eru fáanlegar varanlega.

Ég rifjaði upp hér blaðamannafund sem mig minnir að hafi verið í ágúst, september 2013, eða eitthvað fyrr hefur það verið, um það leyti áður en viðræðunum var frestað að undirlagi Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Þá voru þeir saman á blaðamannafundi Össur Skarphéðinsson, þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, og Stefan Füle, sem var stækkunarstjóri Evrópusambandsins á þeim tíma. Össur hafði farið yfir, eins og hans er von og vísa, með miklu skrautmælgi hversu vel Evrópusambandið stæði sig í því að finna aðlaganir sem öllum væru þóknanlegar til að samningar gætu náðst. Þá fékk Stefan Füle, þáverandi stækkunarstjóri Evrópusambandsins, orðið, og ég byrja, með leyfi forseta, á ensku og þýði þennan stutta texta yfir á íslensku, það sem Stefán Füle segir: „There are no permanent derogations from the EU archive.“ „Archive“ eru sem sagt grundvallarreglur sambandsins, það sem þegar hefur verið samþykkt. „There are no permanent derogations from the EU archive.“ Það eru engar varanlegar undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins. Þetta er það sem stækkunarstjóri Evrópusambandsins á þeim tíma segir sitjandi, ekki reyndar við hliðina heldur var einn maður á milli þeirra, til borðs á blaðamannafundi með þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Össuri Skarphéðinssyni.

Það er ekkert hægt að tala skýrar en þetta. Það eru engar varanlegar undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins. Ýmsir hafa komið hér upp í dag og sagt: Ja, við getum bent á þessar og hinar undanþágureglurnar. Þær held ég að séu undantekningarlaust til komnar áður en þessum viðmiðum, þessu regluverki, var breytt að mig minnir árið 2006, ég er ekki alveg með ártalið á hreinu en ég held að það hafi verið árið 2006. Frá þeim tíma hafa ekki staðið neinar varanlegar undanþágur til boða. Ég held að frá þeim tíma hafi viðmiðið verið það að þjóðir sem gengju í Evrópusambandið tæki upp evru. Ég er ekki alveg búinn að rannsaka það en mig minnir að það sé staðan.

Næst verð ég að segja að spurningin sem áhugamenn um aðild verða að spyrja sig er: Vil ég ganga í Evrópusambandið eins og það er? Ekki eins og ég vildi að það væri heldur eins og það er, því að það er það sem stendur til boða. Evrópusambandið er alveg heiðarlegt með það, alveg skýrt með það. Vil ég ganga í Evrópusambandið eins og það er? er spurningin sem stjórnmálamenn í þessum sal þurfa að spyrja sig. Í mínum huga er svarið við því mjög einfalt en það er auðvitað mismunandi eftir flokkum eins og gengur. En spyrjum okkur réttu spurninganna. Spyrjum spurningarinnar: Viljum við ganga í Evrópusambandið eins og það er?

Það hefur komið reglulega upp gamla góða nálgunin að við ættum auðvitað að fá að kíkja í pokann. Það liggur alveg fyrir hvað er í pokanum. Evrópusambandið er í pokanum eins og það er. Krónan hefur verið rædd töluvert í dag. Það er ekki hægt að slíta úr samhengi umræðu um gjaldmiðilinn og horfa á þróun kaupmáttar í þeim löndum sem við berum okkur saman við yfir það tímabil sem horft er til. Án þeirrar tengingar verður eitthvert raunheimarof á umræðunni. Við verðum að ræða krónuna í samhengi við getuna sem hún hefur sem efnahagstæki til stjórnar á efnahagsmálum hér heima og sömuleiðis hvaða árangri við höfum náð sem þjóð með þennan vissulega litla gjaldmiðil en okkur hefur bara gengið býsna vel í samhengi hlutanna. Það eru fáar þjóðir ef nokkrar sem hafa náð viðlíka sterkri stöðu efnahagslega, svo ekki sé nú talað um þróunina síðustu 80–100 ár samanborið við þær þjóðir sem við helst berum okkur saman við. Hún er hreinlega alveg ótrúleg og það er með krónuna allan tímann. Þetta verðum við að hafa í huga.

Ég tók eftir því í einni ræðu áðan að byggingargeirinn var nefndur, að þetta myndi draga mjög úr sveiflum í byggingargeiranum. Ég er ekki viss um að aðilar í byggingargeiranum telji að lóðaskortur hverfi með breyttum gjaldmiðli. Ég er mjög efins um að nokkur hafi trúað því en sjáum til.

En ég ætla ekki að hafa þetta ekki of langt við þetta tilefni. Þetta er forgangsmál Samfylkingarinnar og hér á þingi eru tveir flokkar sem hafa sett þetta mál á oddinn, Samfylkingin og þingflokkur Viðreisnar. Það er auðvitað alveg sjálfsagt að málið verði rætt í þaula og ég held að það sé að mörgu leyti hollt en við verðum þá líka að spyrja okkur réttu spurninganna og við megum ekki slá ryki í augu fólks hvað það varðar að hér muni okkur standa til boða eitthvert hlaðborð af varanlegum undanþágum hvað mestu hagsmunamál okkar varðar, eins og t.d. sjávarútveg, landbúnað og orkumál. Við eigum að tala um hlutina eins og þeir eru og þá verður þessi umræða gagnleg, meðferðin í nefndinni verður gagnleg. Og komist málið til endanlegrar atkvæðagreiðslu, sem ég tel ágætar líkur á, þá verður það alveg örugglega gagnlegt að sjá hvernig sú atkvæðagreiðsla fer hér í salnum.

Ég ætla að láta þetta duga í bili og vil bara endurtaka undir lokin orð stækkunarstjóra Evrópusambandsins, Stefan Füle, frá því undir lok kjörtímabilsins 2013, með leyfi forseta: Það eru engar varanlegar undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins.