Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:44]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni andsvarið. Ég held að það velkist enginn í vafa um að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á kjörtímabilinu 2013–2016 hefði fengið þingsályktunartillögu þess efnis að draga að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið samþykkta hér í þingsal. Gagnvart Evrópusambandinu hefjast viðræðurnar með bréfi frá þáverandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, þannig að hvað það varðar þá sé ég ekki að það sé neitt óeðlilegt við það að þeim sé lokið með bréfi frá utanríkisráðherra þess tíma, Gunnari Braga Sveinssyni, hæstv. utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þetta er því tækniatriði sem ég held að skipti engu máli í raunheimum. Þingflokkarnir sem þá voru, þingflokkar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks — og það hefðu örugglega fleiri greitt atkvæði með því, þ.e. þingmenn annarra flokka — hefðu alltaf samþykkt slit á þessum viðræðum þannig að þarna er verið að hengja sig í tækniatriði sem skiptir ósköp litlu máli í raunveruleikanum.