Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:45]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, en ég verð eiginlega að fá að gera athugasemdir við það sem sagt var hér. Er það virkilega þannig að við hugsum svona um Alþingi Íslendinga? Alþingi samþykkir að fara í viðræður en ríkisstjórn sem tekur við síðar þarf ekkert að hafa samráð við þingið vegna þess að það hefði hvort eð er bara örugglega verið samþykkt? Að þetta sé eitthvert tækniatriði, eitthvað sem skiptir í sjálfu sér ekki máli því að meiri hlutinn lá alltaf fyrir. Svona getum við ekki umgengist lýðræði eða stöðu þingsins í lýðræðissamfélagi, við getum auðvitað ekki gert það. Öðrum þræði er þessi tillaga okkar flokkanna þriggja einmitt til þess að tryggja það að þetta mál verði leitt til lykta með lýðræðislegum hætti með því að þjóðin fái að kjósa, ekki einu sinni heldur tvisvar, þ.e. tvisvar ef hún samþykkir á annað borð að fara í viðræðurnar, en það þarf auðvitað ekki að kjósa tvisvar ef þjóðin segir okkur það skýrt að hún vilji ekkert með þessar viðræður hafa og við eigum ekkert að fara í þá vegferð. Þannig að ég ætla að fá að gagnrýna þennan málflutning, að það hafi bara verið í lagi það verklag sem var viðhaft, að senda þetta bréf einhvern veginn í skjóli nætur, fyrir nú utan hinn aðdragandann, sem er auðvitað ekkert hægt að heimfæra upp á hv. þm. Bergþór Ólason, að það voru sex ráðherrar í þeirri ríkisstjórn sem lofuðu því fyrir kosningarnar, þá reyndar óbreyttir þingmenn, að þjóðin ætti að fá sitt að segja um það hvort viðræðum yrði slitið eða haldið áfram.

Síðan langaði mig líka aðeins að nefna annað. Við erum alltaf að tala um þessar varanlegu undanþágur og það er alltaf verið að stilla málum þannig upp eins og þetta séu einhverjar ókannaðar lendur, eins og það hafi engar þjóðir áður samið við þetta blessaða Evrópusamband og náð samningum sem þær telja hagfelldar fyrir sína þjóð og sína hagsmuni. (Gripið fram í.) Það hefur verið þannig að í gegnum tíðina hafa þjóðir samið sig þarna inn og það er engin ástæða til að ætla (Forseti hringir.) að Íslendingar geti ekki gert það líka. Það er a.m.k. alveg ótrúleg nauðhyggja að gefa sér það fyrir fram að (Forseti hringir.) slíkur samningur geti ekki verið til hagsbóta fyrir þjóðina. Því vil ég spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort það sé ekki bara einfaldast að leyfa þjóðinni að ráða því og komast að þeirri niðurstöðu sjálf (Forseti hringir.) frekar en að við séum að taka þá ákvörðun fyrir hana.

(Forseti (OH): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)