Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst biðjast afsökunar á því að hafa gleymt að nefna þingflokk Pírata hér áðan þegar ég sagði að málið væri flutt af þingflokki Viðreisnar og Samfylkingar. Auðvitað er þingflokkur Pírata þarna sömuleiðis. Leiðréttist það hér með.

Fyrst að þessum pólitíska ómöguleika sem Sjálfstæðisflokkurinn vísaði til eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar var mynduð. Við erum nú komin á sjötta ár hins pólitíska ómöguleika hér undir þessari ríkisstjórn sem nú er við völd þannig að það gerist reglulega eftir kosningar að flokkar þurfa að ganga í sig með einhvern hluta sinnar stefnu, þó að þarna hafi kannski verið venju fremur skynsamlega stigið til baka að mínu mati. Eftir á að hyggja má vel færa fyrir því rök að það hefði verið skynsamlegra og betra verklag að taka þingsályktunina hérna í gegnum salinn. Ég ætla ekki að neita því. En ég held að það skipti í rauninni ekki mjög miklu máli varðandi lyktir málsins á þeim tíma, þær hefðu orðið hinar sömu og það er í rauninni punkturinn hjá mér.

Hv. þm. Sigmar Guðmundsson byrjaði hér á að segja að það væri aldrei hægt að klára málið. Ég lít svo á að málið hafi klárast, a.m.k. hvað þetta nútímasamhengi varðar, strax þegar viðræður sigldu í strand undir forystu Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi utanríkisráðherra. Hvort eitthvað nýtt er í stöðunni núna sem auki líkurnar á því að staða okkar sé betri hvað einhverjar mögulegar samningaviðræður varðar — ég átta mig ekki á hvað það gæti verið. Ef við horfum á ESB-svæðið sem heild þá held ég að staðan hér heima sé miklu betri (Forseti hringir.) og sérstaklega ef við horfum yfir lengri tíma er hún afgerandi mikið betri. En varðandi spurninguna í lokin: Er ekki bara best að leyfa landsmönnum (Forseti hringir.) að klára málið og taka afstöðu? (Forseti hringir.) Þá verðum við líka að ræða um málið eins og það liggur fyrir, (Forseti hringir.) ekki út frá einhverjum forsendum um að leyfa fólki að kíkja í pakkann sem er ekkert að kíkja í annað en að (Forseti hringir.) menn vita hvað er þarna; það er Evrópusambandið. Það er mín afstaða í þessu.

(Forseti (OH): Enn minnir forseti hv. þingmenn á að virða ræðutímann.)