Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, taka ábyrgð. Ég held að engin þjóð geti staðið ein í þessum heimi og allra síst 360.000 manna þjóð. Mér þykir dapurlegt að hlusta á hv. þingmann, sem talar fyrir flokki sem er umhverfisverndarsinnaður og friðelskandi, sækja stíft í orðabók svartasta íhaldsins. Þar voru frasar, setningar og orð sem maður átti kannski frekar von á úr annarri átt.

Vissulega hafa mörg ríki verið að efla varnir sínar í Evrópu, sem hv. þingmaður kallaði að vígbúast. Áttum okkur á því að Finnar eiga gríðarlega stór landamæri að Rússlandi. Norðmenn eiga landamæri að Rússlandi. Síðan eru ótal mörg lönd sem eiga landamæri að Úkraínu og við erum að upplifa töluverða ógn. Við upplifðum það líka að Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna sem gerði þennan áreiðanleika sem við töldum okkur búa við í NATO-samstarfinu ekki jafn öruggan. Hann gæti verið kosinn aftur. Ég vil nú meina að það sé grundvallarmunur á hefðbundnu varnarbandalagi eins og NATO, sem ég tel vera nauðsynlegt, sem berst gegn hefðbundinni ógn eins og styrjöldum, og síðan sambandi eins og Evrópusambandinu sem berst fyrir mannréttindum, friði, lýðræði, gegn loftslagsógninni o.fl.

Hv. þingmaður sagðist ekki vera hrædd við þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún sagðist ekki vera á móti þjóðaratkvæðagreiðslum. Mig langar þá bara að spyrja: Mun þá hv. þingmaður ekki leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um þetta?